Dansað fram í rauðan dauðann

Hvað er að frétta af heiminum, spurði ég kærasta minn einn morgun í vikunni. Hann hafði vaknað á undan mér og hlustað á morgunfréttirnar. Hann tilkynnti mér að Suzanne Osten, einn fremsti leikstjóri Svía, væri látin. Ég trúði honum ekki í fyrstu, ég hitti hana síðast í áttræðisafmælinu hennar í júní þegar hún bauð öllum sem koma vildu upp í dans. Og ég fór og dansaði við hana við undirleik tólf manna hljómsveitar.

Suzanne Osten varð heimsfræg í Svíþjóð fyrir byltingarkennda barnaleikhúsið Unga Klara sem hún stjórnaði í áraraðir í Borgarleikhúsinu í Stokkhólmi. Þar gerði hún margar umdeildar og ógleymanlegar leiksýningar  sem höfðuðu bæði til barna og fullorðinna. Þar má nefna leikritið um Börn Medeu og Æsku Hitlers, auk leiksýninga sem tóku fyrir viðkvæm málefni eins og átröskun, guð og dauðann, uslann í sænskum skólum og að vera barn móður sem þjáðist af geðröskun. En hún gerði líka leiksýningar fyrir fullorðna áhorfendur sem vöktu ekki síður mikla athygli. Það var hún sem kom Lars Norén, einu helsta leikskáldi Svía, á framfæri á leiksviði svo um munaði með leikritunum Hræðileg hamingja og Bros úr djúpinu.

 Þegar ég fór til sviðslistanáms í Svíþjóð haustið 1976 aðeins 23 ára að aldri, var verið að gera tilraun með eins árs leiklistarnám við Háskólann í Uppsölum sem aðallega var ætlað móðurmálskennurum. Tilraunin fólst í því að kenna þeim að nota leiklist sem kennslutæki en var líka hugsað sem góður undirbúningur fyrir þá sem hugðust leggja leiklistina fyrir sig. Fyrir mér var þetta leiðin inn í leiklist og leikstjórn, enda var ekki mikið framboð á sviðshöfundanámi á þeim tíma.   

 Ég fékk tækifæri til að kynnast aðferðum helstu leikhúsfrömuða samtímans og einn þeirra var Suzanne Osten. Fyrsta leiksýningin sem ég sá í náminu var eftir hana og Per Lysander sem var lengi náinn samstarfsmaður hennar. Það var gamanleikurinn Sessorna på Haga sem fjallaði um sænsku prinsessurnar fjórar, stóru systur Karls Gústafs Svíakonungs. Síðar átti ég eftir að kynnast Suzanne Osten í gegnum verk hennar bæði hér áður fyrr og eins á síðustu árum.  Þar á meðal var sýningin Temps mort árið frá 2023, sem byggði á síðustu sviðstextum Lars Norén en hann lést af völdum Covid 2021.

Þegar Suzanne lést var hún í miðju kafi við að gera kvikmynd um listrænt samband sitt við Ingmar Bergman og þar ætlaði hún að notast við gervigreind til að lífga sig og Bergmann við. Allt var tilbúið, fjármögnun, leikarar og áhöfn og það sem vakti mesta athygli við verkefnið var samstarf hennar við krimmadrottninguna Camillu Läckberg. En Suzanne var aldeilis enginn nýgræðingur í kvikmyndagerð. Ein frægasta kvikmynd hennar er Bröderna Mozart frá 1986 sem fjallar um eðli og stöðu listamannsins en myndin gerist í óperuhúsi þar sem verið er að setja upp Don Giovanni eftir Mozart. Þetta var kvikmyndin sem Olof og Lis Palme sáu kvöldið sem hann var myrtur.

 Ég á þó nokkrar minningar um Suzanne, ekki bara frá dansinum í áttræðisafmælinu hennar heldur líka þegar ég leitaði til hennar í kvíðakasti út af leikhúsdraumum mínum þegar ég var ung og óreynd. Árið 2007 skipulagði ég ferð hennar til Íslands á vegum Þjóðleikhússins þar sem hún hélt námskeið með leikurum hússins en þá stóð til að hún setti þar upp Fjalla-Eyvind. Áður en námskeiðið hófst, kom það í minn hlut að fara með hana og þáverandi kærustu og samstarfskonu í ferðalag um Ísland svo þær getu gert sér í hugarlund við hvers konar aðstæður Fjalla-Eyvindur og Halla bjuggu á öræfum. Ég var bæði bílstjóri og leiðsögumaður og það var sannkallað ævintýri.

 Kærastan, hámenntaður sálgreinir, sat allan tímann í farþegasætinu, vel spennt og dauðhrædd  við íslenska þjóðvegi og náttúru, ekki síst þegar við ókum eftir hræðilegum og sundurskornum vegi á Kaldadal. Hún hafði þó mestar áhyggjur af Suzanne sem var með of háan blóðþrýsing. Alla ferðina lá Suzanne sultuslök í baksætinu með teikniblokk og tréliti eins og þægt barn og rissaði upp myndir af því sem fyrir augu bar. Á milli myndanna spurði hún mig út úr um æsku mína og fjölskyldu, starfið í leikhúsinu og íslenskt samfélag og kærastan greindi mig svo í kjölfarið.

Suzanne var forvitin, skemmtileg, full af hugmyndum, orku og lífi. Hún naut þess að ferðast, búa á góðum hótelum eins og Búðum og Hótel Valhöll sem þá stóð enn á Þingvöllum, borða góðan mat og klæðast fallegum fötum. Hún var tískudrós í bestu merkingu orðsins, skar sig úr fyrir frumlegar litasamsetningar, form og munstur þegar kom að fatavali. Þar var engu sundurgerðarleysi fyrir að fara.

 En þannig var persónuleiki hennar líka, skrautlegur. Hún þoldi ekki neina stöðnun, hvorki í lífi né list enda var hún einstaklega mikil framúrstefnukona á öllum sviðum, brautryðjandi þegar kom að þátttöku kvenna í leikhúsinu, hver man ekki eftir Jösses flickor! (Áfram stelpur!) sem hún skrifaði ásamt Margareta Garpe, hið eina sanna kvenfrelsisleikrit. Hún lyfti listrænu hlutverki barnaleikhússins upp í hæstu hæðir og gaf engan afslátt á listrænum kröfum þegar börn voru annars vegar.  

 Suzanne Osten er sárt saknað og hennar verður lengi minnst fyrir sínar djörfu og stórmerkilegu leiksýningar og kvikmyndir. Hún var listamaður fram í fingurgóma og fór aldrei dult með skoðanir sínar á pólitísku hlutverki listarinnar í samfélaginu. Það varð ekkert úr því að hún setti upp Fjalla-Eyvind í Þjóðleikhúsinu. Líklega höfðaði verkið ekki nægilega sterkt til hennar þegar allt kom til alls. Engu að síður var gaman að fá að „hanga“ með henni. Og hún passaði upp á að dressa sig upp í flottustu tískubúð bæjarins við Skólavörðustíg áður en hún fór úr landi.

 Ég lýg því ekki þegar ég segi að Suzanne Osten hafi haft mest áhrif á mig af öllum sviðslistamönnum heims og ég er mjög þakklát leikhúsgyðjunni fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast henni, læra af henni og dansa við hana næstum því fram í rauðan dauðann.   

 

 

 

 

 

Previous
Previous

Second hand drottning

Next
Next

Entertaining people