Second hand drottning

,,Taktu síðdegið og kvöldið 6. nóvember frá; ekki gleyma síðkjólnum og varalitnum. Kem og sæki þig á kjólfötunum og fer með þig í Ríkissalinn í Höllinni um fimmleytið." Svona hljóðuðu skilaboðin frá kónginum til drottningarinnar þegar henni var boðið til hátíðarkvöldverðar daginn eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Hún maldaði eitthvað í móinn, sagðist ekki geta þegið boðið ef herra Prumpufýla myndi vinna kosningarnar. “Uss, sagði kóngurinn, hvað eru einar forsetakosningar á móti góðu partýi?”

Svo rann þessi hræðilegi dagur upp og í svefnrofunum kveikti ég á útvarpinu og þegar ég heyrði hvert stefndi vestanhafs var ég fljót að slökkva og hlustaði ekki á fleiri fréttir þann daginn. En ekki gat ég hætt við að fara í höllina, ég var búin að panta lagningu, þá fyrstu síðan ég fermdist fyrir 57 árum. En ég pantaði ekki í förðun, endurnýjaði bara snyrtibudduna þótt ég sé alger mínímalisti í meiköppinu. Húðgenin úr Fljótunum hafa bjargað mér hingað til frá feislifti og bótoxi og ekki hef ég flatmagað mikið undir sól. Hrukkukremin því ekki komið til tals.   

 Ekki fór ég heldur í maníkjúr og pedíkjúr, hvað þá neglur, gerði bara allt sjálf, ekki oft sem ég lakka á mér neglurnar. En í þetta sinn notaði ég vegan lakk eins og stóð á glasinu.  Snilldarbragð í sölumennsku. Norsku borðherrarnir mínir í höllinni fengu hláturskast þegar ég sagði þeim að ég væri með veganlakk á nöglunum. Það barst í tal þar sem boðið var upp á umhverfisvænan bjór með forréttinum, norskum laxi auðvitað. En hann var ekki vegan, svo mikið er víst.

En guð minn góður, hvað það er tímafrekt og mikil útgerð að vera drottning. Í fyrsta lagi að ákveða hvaða kjól drottning á að klæðast og hvaða skóm? Kjólinn átti ég inni í skáp og keypti fyrir 70 dollara í second hand búð í Ann Arbor. Fyrir þá sem eru áhugamenn um fataval fyrirmenna eins og mín og forseta Íslands, get ég upplýst að kjóllinn er frá Liberty House á Hawai og er svokallaður kookoo kjóll úr dásemdarbómull, svalur í heitri golu við Kyrrahaf og hlýr í svölum miðaldahöllum í norðri. Kjóllinn var eins og sniðinn á mig, enda reyndist hann vera mín stærð eða númer 42 svo því sé haldið til haga.

 Skóna átti ég líka frá Kramhúsballi 2017, svart rúskinn, með gati í tánni og átta sentimetra hælum, takk, en stöðugum þó. Upplýsi ekki um númer, Öskubuska hefur elst. Já, ég get enn gengið á háum hælum með aðstoð. Innlegg og plástur í kvenveskinu ef allt fer á versta veg. Kóngurinn skildi það vel þegar við vorum á leið upp allar steintröppurnar í Ríkissalinn, tók drottninguna undir arminn til að létta henni sporin, engin lyfta í gömlum höllum auðvitað. Að spranga um á háum hælum á efri árum er svona álíka og fara á fjöll eftir nírætt, það myndast alltaf núningur milli skinns og leista og því eins gott að hafa gervihúð til taks til að forða sári.

 Nú svo má ekki gleyma aðalatriðinu, skartgripunum. Engin kona getur verið drottning án þess að skreyta sig með þeim. Best að viðurkenna það strax að mín skartgripaskrín geyma hvorki perlur né demanta enda er ég af alþýðu komin. Og enga á ég gullhringana heldur, bara þennan eina sem ég erfði eftir langömmu mína úr Fnjóskadalnum og hef gengið með allar götur síðan hún dó árið 1971. Gullhringana tvo sem ég fékk frá föðursystrum mínum í fermingargjöf seldi ég á Strikinu forðum daga þegar ég var hippi en þó ekki fyrri hassi ef einhverjum skyldi detta slíkt í hug.

 Og ég verð að játa, komin á fullorðinsár, að ég er drulluspæld yfir því að enginn af öllum mínum kærustum hafi gefið mér gullhring eins og gengur og gerist í öllum rómantískum bíómyndum. Ég lét því rautt veganlakkið duga sem fingurskraut en bíð enn eftir baugunum. Hringlaga eyrnalokka gróf ég upp úr mínu skríni sem smellpössuðu við græna litinn í kjólnum og fann hálsskraut í stíl, alíslenska hönnun. Gjöf sem ég fékk að launum frá Kvennaathvarfinu 2006 fyrir vel unnin störf. Og ekki má gleyma ítalska kvenveskinu sem ég keypti í borginni hans Fellinis 1987. Second hand drottningar verða að vera með viss ártöl á hreinu.   

 Og svo kom kóngurinn loksins og sótti drottninguna svona líka sallafína í tíu ára gamalli yfirhöfn sem hefur aldrei farið í hreinsun. Besta vinkonan kenndi mér að viðra fatnað á svölum og sleppa þannig við þá fyrirhöfn sem óneitanlega fylgir fatahreinsun svo ég tali ekki um kostnað. Og rétt áður en drottningin sveif á braut í eðalvagni í átt að höllinni með sínum kjólfataklædda kóngi, dúndraði hún á sig mildu Armani ilmvatni, því ekki má drepa sessunautana með ilmvatnsfnyk.

 Eftir hátíðardagskrá, kampavín og borðhald, tók við uppistand og þá reyndi verulega á stultur drottningar. Þegar ekki var lengur á hælunum staðið, leitaði hún skjóls í lítilli gluggahvelfingu þar sem enginn tók eftir henni og fór þar úr skónum og hvíldi lúin bein. Hún horfði á gestina streyma hvern á fætur öðrum út úr höllinni allt þar til kóngurinn kom skömmu fyrir miðnætti og sótti hana. Hún var þá komin í báða skóna aftur og dansaði niður tröppurnar út í svalt miðnæturloftið.

Það var gott að fá að vera drottning þennan eina dag með góðum kóngi á meðan vondu kóngaranir náðu völdum fyrir vestan, þótt hún hafi verið second hand í orðsins fyllstu merkingu. Köttur út í mýri, úti er ævintýri en mikið hvað það er gott að gleyma sér í smástund með ævintýrunum, gleyma vonsku heimsins og vanmætti okkar gagnvart henni.  

 

  

 

 

 

 

Previous
Previous

Maður og vél

Next
Next

Dansað fram í rauðan dauðann