Maður og vél

Sænsk stjórnvöld stefna nú hraðbyri að því að fjárfesta fyrir milljarða í gervigreind til að dragast ekki aftur úr þeim ríkjum sem lengst eru komin í notkun hennar, Bandaríkjunum og Kína. Þegar ég heyrði um þessi áform Svía varð mér hugsað til þess að í Bandaríkjunum eru um eða yfir 300.000 kínverskir námsmenn.

Kínversk stjórnvöld leggja mikið upp úr því að ungviðið mennti sig í bandarískum háskólum. Foreldrar námsmanna sem þangað sækja skólavist leggja því mikið á sig til að kosta nám þeirra sem er rándýrt. Þeir jafnvel selja ofan af sér og búa um sig í minna húsnæði meðan á námi barnanna stendur til að geta greitt himinhá skólagjöldin í Bandaríkjunum.

Það segir sig sjálft að allur þessi fjöldi námsmanna kann ekki mikla ensku þegar þeir koma til Bandaríkjanna enda fara langflestir þeirra til náms í raungreinum, verkfræði, tölvufræði og forritun sem krefst meiri stærðfræðiþekkingar en endilega færni í enskri tungu. Þar að auki er alltaf hægt að notast við netið og gervigreind til að gera sig skiljanlegan.

 Fyrir kínverska námsmenn skiptir öllu máli að krækja sér í bandaríska háskólagráðu til að geta öðlast frama þegar heim er komið. En það getur reynst þeim erfitt að ná öllum einingunum sem eru nauðsynlegar til að fá gráðuna og stundum vantar bara pínupons til að prófskírteininð sé örugglega í höfn. Þá getur verið þægilegt að skella sér á einhvern „léttan“ kúrs þar sem ekki er krafist mikillar vinnu og jafnvel hægt að nýta sér gervigreind til að leysa verkefnin.

 Ég kenndi námskeið um Íslenskar bókmenntir og ritlist við bandarískan háskóla í fyrravor og í nemendahópnum voru fimm kínversk ungmenni, þar af tveir piltar. Ég tók fljótt eftir því að piltarnir mættu illa og skiluðu verkefnum seint eða á svo fullkominni ensku að það gat ekki staðist að þeir hefðu skrifað hana sjálfir. Annar þeirra átti í verulegum erfiðleikum með að tjá sig og hvað þá skilja það sem fram fór í tímum. Mig grunaði fljótt að þeir væru að notast við gervigreind og ákvað að kalla þá á minn fund til að ganga úr skugga um það.

Annar þeirra, sem var skárri í ensku, mætti til mín galvaskur á skrifstofuna en skildi ekki hvaðan á hann stóð veðrið þegar ég færði þessa grunsemd mína í tal. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að ástæða grunsemdanna væri einfaldlega sú að ekki væri hægt að merkja neinn persónulegan tón eða rödd í skrifum hans. Stíllinn væri á svo háfleygu og gamaldags máli að ég spyrði mig hvort hann væri kannski sérfræðingur í enskum og bandarískum nítjándualdar bókmenntum?

Nei, því fór fjarr, hann var í tölvunarfræði og sótti námskeiðið hjá mér af því hann vantaði þessa einu mikilvægu einingu til að ljúka prófi um vorið. Hann hafði ekki áttað sig á þetta væri ritlist eða skapandi skrif og að skrifin þyrftu að vera hans eigin hugarsmíð en ekki einhverrar vélar úti í bæ. Honum sárnaði og sagðist aldrei hafa notað vél til að skrifa verkefnisín og laug auðvitað beint upp í opið geðið á mér.

 Ég setti honum afarkosti, það var stutt eftir af námskeiðinu og ef ég sæi enn eitt verkefnið sem væri ekki skrifað af honum sjálfum myndi ég fella hann. Hann náfölnaði fyrir framan mig og sagði að hann yrði að ná þessari einingu annars væri líf hans og framtíð í rúst. En ekki fékk þetta samtal þó nógu mikið á hann eða kannski skildi hann ekki hvað ég var að segja, því í næsta verkefni þar sem nemendur áttu að skrifa dramatískt samtal, gerði hann sér lítið fyrir og sendi mér senu úr verkinu Eldraunin eftir Arthur Miller, svo nú bættist ritstuldur við gervigreindina.

 Þegar ég benti honum á að þetta væri ekki texti eftir hann heldur eitt frægasta leikskáld Bandaríkjanna þvertók hann fyrir það, þetta væri hans útgáfa á senu úr verkinu. En verkefnið snerist ekki um að skrifa útgáfu af leiksenu eftir aðra höfunda, hann átti að skrifa sína eigin senu. Ég gerði honum grein fyrir að hann væri fallinn og reyndar félagi hans líka. Aftur tók ég þá eintal ásamt yfirmanni deildarinnar og það var eins og að tala við tvær vélar. Sá sem kunni aðeins betri ensku þvertók fyrir allan ritstuld og gervigreind en þegar gengið var á hinn piltinn, sagðist hann stundum nota gervigreind til að hressa aðeins upp á enskuna sína.

 Eftir stutta ráðstefnu með deildarstjóranum var ákveðið að þessir tveir nemendur þreyttu próf til að sanna hvort þeir gætu yfirhöfuð sjálfir skrifað á ensku. Þeim var gert að mæta á tilteknum tíma á ákveðinn stað og urðu að skilja við sig bæði tölvur og síma. Ég afhenti þeim línustrikuð blöð og penna. Þeir fengu klukkustund til að skrifa eina stílæfingu sem átti að fjalla um bernskuminningu.

 Þótt enskan þeirra væri ekki upp á tíu, var innihald textans einlæg lýsing á erfiðri reynslu sem þeir höfðu orðið fyrir sem börn og unglingar, annar með foreldrum í óveðri til sjós í Kína, hinn einn í tólf tíma bið á Kennedy flugvelli á leið í sumarskóla í Bandaríkjunum. Mér varð hugsað til foreldra þeirra sem höfðu kannski selt ofan af sér til að koma þeim í nám og ákvað að fella þá ekki en gaf þeim lægstu mögulegu einkunn.

Síðar komst ég að því að gervigreindin tröllríður bandarískum háskólum á öllum sviðum mörgum kennurum til mikillar armæðu. Maðurinn er ekki vél og vélin er ekki maður en það getur verið að áður en langt um líður muni maður og vél renna saman í eitt og þá er úti um okkur segja mér menn sem í alvöru eru mjög greindir.  

    

  

 

 

 

 

Next
Next

Second hand drottning