Mont er best í hófi

Þótt ég hafi ekki enn komist í samband við möttul jarðar og látið grilla á mér rassgatið, get ég montað mig af því að hafa komist oftar en einu sinni í erótískt samband við náttúruna. Ég hef orðið ástfangin af fjöllum, daðrað við kletta og rifið mig úr öllum fötunum til að pósa.

Eins og til dæmis í fjörunni fyrir neðan Malarrifsvita eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Strípihneigðin og sýniþörfin svo mikil að vinkonu minni sem tók myndina varð ekki um sel þegar ég klifraði eins og köttur í klettunum. Það var reyndar ekkert gos á ferðinni en þó einhver innri kvikugangur, tilfinningagos, manía og mont í mér.

En stundum ríður montið ekki við einteyming hvorki hjá mér né öðrum. Íslendingar voru ekki fyrr búnir að monta sig af því að veiran væri öll þegar hún blossaði upp aftur. Og ekki í fyrsta sinn. Og svo þegar loksins gaus, þurfti einn vísindamaðurinn í gosliðinu endilega að monta sig af því hvað hann væri góður í gosum og staðhæfði að gosið væri óttalegur ræfill sem gæti nú lognast út af á hverri stundu. Hann var ekki fyrr búinn að loka munninum í sjónvarpssettinu þegar sviðsmyndin breyttist. Við blasti hugsanlega langvarandi gos beint úr möttli jarðar, dyngja í fæðingu, sviðsmynd sem enginn sá fyrir.

 Og nú verða allir að fara og sjá gosið, getnaðinn sjálfan, þegar hraunið frussast og slettist niður á móður jörð. Eða kannski er réttara að segja að móðir jörð hafi opnað á sér sköpin, því jörðin, hún er kynlaus, þótt sumir hér áður fyrr hafi líkt henni við konu og himninum yfir henni við karl. Var það ekki einmitt í kvikmyndinni 1900 eftir Bertolucci sem ungir piltar á gelgjuskeiðinu höfðu mök við vota jörðina?

 Auðvitað ber að fagna því að eldurinn geti rifið veiruþreytta þjóð upp úr þunglyndinu og fengið hana til að stika ljósum logum í átt að öskrandi skepnunni nótt sem nýtan dag. Allt streymir, allt flýtur eins og Herakleitos hinn gríski sagði í fornöld. Og nú streymir þjóðin bókstaflega fram eins og hver önnur hraunelfur á móti þeirri sem engu eirir, líf mætir lífi. Síðan streymir þjóðin myndunum látlaust eins og eldstöðin gosefnunum, okkur hinum til skemmtunar, svona oftast nær. Endurtekningin aldrei alveg eins, alltaf nýtt sjónarhorn og sýniþörfin í jákvæðum algleymingi.   

 Þegar sýniþörfin kemst í tæri við frumsköpunina sjálfa er eins og hún espist upp. Um það vitnar allt myndstreymið. Allir verða listamenn, allir pósa og hella úr sér ástarjátningum, lofa og mæra þetta stórbrotna land, þessa klikkuðu þjóð og gott ef ekki tunguna líka sem þó skortir orð yfir lætin í ræflinum. Sköpunargleði og erótík haldast í hendur í Geldingadal. Þjóðarlíkaminn fær útrás fyrir innri krafta og óróa, kemst í beint samband við möttul jarðar, lætur grilla sig, dýfir tá í nýrunnið hraun, storkar náttúrunni en verður að  lúta í lægra haldi.

En í þjóðarlíkamanum verða líka eldsumbrot, þar getur allt orðið rauðglóandi á augabragði. Brennandi tilfinningar vella upp úr iðrunum þegar minnst varir og gera rúmrusk í sálinni eða storkna á leiðinni áður en þær ná upp á yfirborðið. Og stundum er það okkur fyrir bestu að þær hverfi sporlaust niður í sálardjúpin eins og önnur eldgos sem aldrei verða.

 Eflaust hefur eldspúandi jörðin sett mark sitt á þjóðarsálina um aldir alda, skapað ákveðna geðtegund svo ekki sé minnst á gastegund, því ekki vantar loftið í okkur. Ekki skrítið að margir í okkar landi glími við geðraskanir, landið sjálft ,,borderline“ meira og minna. Aldrei á vísan að róa þegar búið er á eyju sem hvílir á gosstróki með beintengingu við hin myrku öfl.

Á minni stuttu gosævi hefur gosið yfir tuttugu sinnum með tilheyrandi öskufalli, hraunrennsli og eyfæðingum. Og sviðsmyndirnar eru alltaf að breytast á eldsviði landsins, ræfill í dag, risi á morgun, stanslausir sveiflur, upp og niður, manía, þunglyndi. Engin furða að við séum dálítið skrítin.

Við getum samt montað okkur af svo mörgu, af gönguferðum á gosslóðir, baráttunni við veiruna og af börnunum okkar og þeirra afrekum svo ekki sé minnst á forfeðurna, sérstaklega ef þeir hafa ættarnafn. Þar hefur Íslendingabók gert ómælt gagn fyrir þá sem töldu sig ættlausa.

 En eins og segir í málshættinum sem ég fékk í páskaegginu rétt í þessu: ,,Mont er best í hófi en vont í kófi.“ Og það er mikið kóf þessa dagana, alls konar kóf, reykjarkóf og svitakóf við að koma sér upp að eldstöðinni áfallalaust. Auðvitað verða allir að sýna sig við jarðeldinn, taka flotta mynd. Annars eru þeir ekki sannir Íslendingar.

Allir eru þó alltaf að taka mynd af því sama, af frummanninum í sjálfum sér sem elskar sína eigin spegilmynd með náttúruna í bakgrunni. Og ég líka þarna á svartri skepnunni við Malarrifsvita, frumkonan sjálf með vænan skammt af sýniþörf.

Previous
Previous

Ég er Daniel Blake

Next
Next

Frjálslega vaxnar konur