Frjálslega vaxnar konur

Ég vildi aldrei verða kona þegar ég var barn og táningur. Og ég vildi alls ekki verða feit kona. Föðurröddin var svo sterk í mér og hún sagði að konur væru annars flokks og ef þær voru líka feitar áttu þær lítinn séns. Þetta var á þeim tímum þegar kynin voru aðeins tvö og ekki um neitt annað að velja. Og flestar konur voru annars flokks mannverur og mamma þar á meðal, sex barna móðir, heimavinnandi og alltaf í vondu skapi.

Henni leið djöfullega í þessu hlutverki sem konur tóku að sér eða var þröngvað til í samfélagi eftirstríðsáranna á Íslandi, hlutverki sem fólst í því að leggja alla sína langanir og drauma á hilluna og gerast útungunarvélar fyrir sjálfstæði og framsókn. Og svo var mamma feit í þokkabót eða öllu heldur afmynduð af barneignum. Ungur líkami hennar fór úr skorðum við að ganga með fimm börn á fimm árum, þar á meðal tvíbura.  

Þess vegna urðu megrunarkúrarnir allsráðandi ekki bara hjá henni heldur mörgum heimavinnandi konum sem voru stöðugt að búa til mat og baka og alltaf hundóánægðar með útlitið sem þær fengu á heilann. Og ég vildi alls ekki verða feit kona eins og mamma og besta leiðin til þess var að láta ekki óléttu eyðileggja líkamann, að verða alls ekki að konu. Ég leit upp til karlmanna, þeir voru fyrirmynd mín, ég vildi verða eins og þeir.  

Ég fékk snemma smjörþefinn af þessum útlitspælingum ekki bara með öllu megrunartalinu í mömmu, systrum hennar og vinkonum, heldur líka hjá föðursystrum mínum sem voru miklar afrekskonur í íþróttum. Þeim tókst að koma því inn hjá mér þegar ég var smástelpa í fjölskylduboði hjá ömmu að ég væri búttuð og þyrfti að passa mig á að verða ekki feit.

 Á meðan kaffiborðið svignaði af rjómatertum og öðrum sætindum sem þær höfðu keppst við að baka með monti, fylgdust þær með því að ég borðaði ekki of mikið, fengi mér ekki aftur á diskinn: ,,Ætlarðu að verða feit eins og mamma þín“ sögðu þær frænkurnar. Því það var ekkert verið að fara í launkofa með galla og veikleika fólks, að vera fitubolla var ekki í boði. Það var því ekki bara pabbi sem gerði lítið úr mömmu fyrir útlit hennar, mágkonurnar gerðu það líka, að vera feitur var merki um ómennsku, leti og skort á sjálfsaga.

 Þegar ég horfi á myndir af mömmu frá þessum rjómatertuárum sýnist mér hún hvorki feit né holdmikil. Hún er ekki þvengmjó og ekki í kjörþyngd, hún er mjaðmamikil, brjóstgóð og kynþokkafull kona á fertugsaldri. Hún passaði alltaf upp á útlitið, fór í lagningu á hverjum laugardagsmorgni, gekk í aðsniðnum kjólum sem voru sérsaumaðir, var virkilega í mun að vera falleg á velli þrátt fyrir aukakílóin. Steig reglulega á viktina. Ekki skorti sjálfsagann þar.

 En allt tók þetta á hana, innanundir fallegum kjólnum klæddist hún þröngu magabelti sem hélt slitnum og sprungnum maganum inni, svokölluðu lífstykki. Skringilegt orð ,,lífstykki“ en það hélt lífinu í mömmu, hélt henni beinni í baki. Án þess hefði hún ekki getað farið út meðal fólks. Hún skammaðist sín alltaf fyrir barnmargan magann, hann var hennar mesta lýti. Lýtalæknarnir sem kippa svona smámunum í lag á okkar dögum voru ekki komnir til sögunnar.

Ef kona vildi ná tökum á sínum aukapundum fór hún í megrunarkúr: hvítvínskúrinn, karlmellukúrinn, danska kúrinn eða fékk resept fyrir amfetamíni hjá heimilislækninum. Og talandi um megrunarkarmellur. Þegar ég var rúmlega tvítug vann ég eitt sumar sem herbergisþerna á hótel Flókalundi í Vatnsfirði. Ég vann á hverjum degi og allar helgar, tók aldrei frí nema til að borða, var að safna pening fyrir háskólanámi.

Hótelstjórinn, svona Jayne Mansfield týpa, útbýtti stundum megrunarkarmellum á okkur starfsstúlkurnar við matarborðið sem ég afþakkaði. ,,Hva, viltu verða feit eins og mamma þín“ sagði hún þá. Ég hefði betur aldrei trúað henni fyrir að mamma ætti í vandræðum með aukakílóin. Hótelstýran var með mig undir eftirliti, fannst ég taka full hraustlega til matar míns og gerði athugasemd við það þegar ég fékk mér aftur á diskinn. Ég sagðist þurfa á þessum hitaeiningum að halda við mín störf, ég brenndi svo miklu við að skipta á rúmum og þrífa klósett.

 Stina Wollter er 56 ára gömul listakona hér í Svíþjóð sem kallar sig líka líkamsaðgerðasinna. Hún er ,,frjálslega“ vaxin kona eins og það heitir svo hallærislega og hefur vakið athygli fyrir að pósta myndum af sér á Instagram, fáklæddri og ekkert að fela vaxtarlag sitt. Líkamsaðgerðir Stinu Wollter hafa uppskorið mörg læk ekki bara hjá jafnöldrum hennar heldur líka ungum konum sem eru með litla eða lélega líkamsvirðingu.

 Ég hugsa oft til mömmu þegar líkamsvirðingu ber á góma. Henni leið aldrei vel í sínum líkama, var í stöðugu basli með aukakílóin. Henni fannst hún aldrei feit, heldur bara of þung. Hún talaði oft niðrandi um feitar konur sem þyrftu að fara að gera eitthvað í sínum málum en viðurkenndi aldrei sitt eigið ofát sem jókst með árunum þar til hún greindist með áunna sykursýki.  

  Á endanum varð ég víst að konu, get ekki þrætt fyrir mjaðmir mínar, rassinn og brjóstin en aldrei varð ég ólétt en það er annað mál. Líkami minn fór aldrei úr skorðum eins og í tilviki mömmu eða bætti á sig óþarfa kílóum. Samt er ég alltaf meðvituð um að verða ekki aukakílóunum að bráð, vil alls ekki vera fitubolla, ekki annars fokks, kaldranaleg föðurröddin enn að verki. En ég tek hraustlega til matar míns, sleppi megrunarkarmellunum, fæ mér frekar döðlutertu með pekanhnetum og þeyttum rjóma. Nammínamm. Ég er frjálslega vaxin kona með líkamsvirðingu.

    

 

Previous
Previous

Mont er best í hófi

Next
Next

Tjáning er þjáning