Ýmis konar systrabönd

Stærsta og fyrirferðarmesta mublan á heimilum landsmanna er flatskjárinn ógurlegi. Hann trónir yfir heimilislífinu og hefur eflaust bjargað mörgum í pestinni sem leyfir aðeins ferðalög innanhúss. Framboðið af streymisveitum og sjónvarpsefni er svo mikið að það þarf ráðgjöf til að velja það besta. En sem betur fer er allt best eftir að Íslendingar fóru að framleiða sitt eigið sjónvarpsefni.

Nú síðast eru það Systrabönd sem landinn heldur ekki vatni yfir, það allra besta sem sést hefur á skjám landsmanna hingað til segir FB, algjör schnilld. Hrósið ætlar engan enda að taka, ekkert verður betra fyrr en næsta sería kemur frá þessum sömu konum. Nú er það svo að ég hef ekki haft tækifæri til að sjá þessa mögnuðu seríu. Hins vegar álpaðist ég inn á FB síðu hjá blásaklausri konu sem var að hrósa seríunni en auðvitað er ég eins og aðrir alltaf að snuðra á FB, leitandi að helstu sannindum samtíðarinnar.

Og viti menn þar var umræða í gangi um mögulegan hugverkastuld þar sem aðstandendur Systrabanda, konurnar og ekki síst gróðapungarnir að baki Símanum, eru ásökuð um að hafa stolið hugmyndinni frá skáldkonu sem skrifaði leikritið Hystory. Það fjallar einnig um þrjár konur sem á fullorðinsaldri þurfa að horfast í augu við glæp sem þær frömdu á unglingsaldri.

Yfirleitt hætti ég mér ekki inn í umræður á FB vegna þess að í flestum tilvikum leiða þær ekki til neins og eru oftast ávísun á misskilning, ásakanir, útúrsnúning og almennan dónaskap. Nokkuð sem hef gert mig seka um sjálf og er því ekki undanskilin. En í þetta sinn voru það aðallega konur sem voru að ræða um hugverk eftir konur. Og þetta voru engar venjulegar konur, heldur þekktar og virtar skáldkonur á öllum aldri og einstaka aðrir menningarvitar af báðum kynjum og svo ég.

Mér fannst reyndar sjálfri við lýsingu á Systraböndum að efni seríunnar minnti á leikritið Hystory, verk sem ég hef bæði lesið, séð á leiksviði og notað til kennslu. Þessi líkindi verkanna urðu síðan uppspretta skrifanna á FB þræðinum. Ein af áðurnefndum skáldkonum var fyrst til að benda á þau. Í kjölfarið komu fleiri skáldkonur sem tóku upp hanskann fyrir höfundi Hystory, hver með sínum hætti og miskjaftforum. Því var haldið fram að bæði hugmynd og leikriti hefði verið stolið af framleiðendum Systrabanda. Möguleikar skáldkonunnar til þess að ,,selja“ leikrit sitt Hystory til sjónvarpsframleiðslu væru nú að engu orðnir.  

Og án þess að hafa séð Systrabönd eða vita nokkurn skapaðan hlut um tilurð seríunnar hætti ég mér út í kviksyndið og lagði orð í belg. Ég vildi benda á að ekki væri nú svo óalgengt að höfundar skrifuðu um sama efni eða fengju sömu hugmyndirnar. Það væri alltaf verið að skrifa sama verkið aftur og aftur bara með nýrri höfundarrödd, öðruvísi útfærslu, öðrum áherslum. Og það leið ekki á löngu þar til ég fékk holskefluna yfir mig eins og ég væri með mínum orðum að verja hugverkastuld. Að lokum var ég orðin talsmaður þess að höfundar hirtu það sem þeim sýndist hver frá öðrum og lent út í móa.

Ég skynjaði fljótt að í þessari eldfimu umræðu lá eitthvað annað að baki, ekki einungis samúð með höfundi Hystory heldur annað og stærra mál burtséð frá mögulegum stuldi, mál sem kemur öllum höfundum við. Það er annars vegar þrá listamannsins til að slá í gegn og hljóta listræna hylli, ekki bara innan síns eigin hóps heldur meðal alþýðu manna. Hinsvegar er það tekjuhliðin, að geta mögulega aflað sér frekari tekna með skrifum fyrir aðra miðla sem á ekki hvað síst við höfunda sem hafa haft það að aðalstarfi alla ævi að skrifa og kunna ekkert annað.

Sannleikurinn er sá að bókaútgáfa gegnir ekki sömu stöðu á ,,afþreyingarmarkaði“ og hún gerði. Bækur seljast ekki í sama magni og hér áður þegar sjónvarpsskjárinn var ekki helsta mublan sem fólk ornaði sér við. Það er ekki bara rafbókin og hljóðbókin sem hafa tekið við af prentgripnum, heldur einmitt sjónvarpsskrifin. Í þeim liggja möguleikar margra höfunda bæði listrænt og fjárhagslega.  

Já, ég segi það enn og aftur, ég álpaðist því miður inn á spjallþráð á FB um Systrabönd þar sem konur voru að ásaka konur um hugverkastuld sem er auðvitað alvarlegt mál ef satt er og hægt að færa rök fyrir. Ekki beint mikill systrakærleikur þar á bæ og ég allt í einu var ég orðin að vondu systurinni sem styð hugverkastuld og það frá kynsystur minni. Semsagt konur gegn konum.

Þýðir þetta að konur séu konum verstar? Nei, ekkert frekar en að konur séu konum bestar, því það eru þær alls ekki alltaf, þótt þær vilji gefa sig út fyrir að vera svo góðar. Þær dást gjarnan að kynsystrum sínum sem hafa náð árangri á ýmsum sviðum eða allt þar til sá árangur hugsanalega ógnar þeirra eigin stöðu. Aðdáun breytist í öfund. Konur geta verið andstyggilegar við konur. Eitraðar og banvænar. Er það ekki einmitt það sem Systrabönd og Hystory fjallar um?

Bráðum kem ég heim til Ísalandsins bláa og fæ að sjá eldgos og Systrabönd á rosalegum stórum skjá sem bróðir minn gaf mér. Honum fannst ég með allt of lítinn flatskjá þegar hann bjó nýverið í íbúðinni minni. Stórt skal það vera í sóttkvínni. Ég ætla rétt að vona að mér takist betur að sjá á þessum risaskjá hvað hér um ræðir. Besta sería Íslandssögunnar ever eða hugverkastuldur? Þar liggur efinn.

  

Previous
Previous

Vottorð og vandræði

Next
Next

Ég er Daniel Blake