Vottorð og vandræði

  Á dögunum bókaði ég tíma hjá lækni hér í þorpinu. Ætlaði að fá hann til að skrifa vottorð um að ég væri með mótefni svo ég gæti flogið til fósturjarðarinnar eftir margra mánaða útlegð. Ég átti nefnilega að koma heim í dag en lenti í flugrugli og kóvídflækju. Sem lýsir sér helst sem vottorðaóreiða og ósamræmi í reglum um ferðalög milli landa.

Læknirinn var eins og ég, útlendingur sem talaði sænsku með hreim. Ég sagði honum að ég væri frá Íslandi, giskaði á að hann væri frá Sýrlandi, að arabíska væri hans móðurmál. Við tókum gott spjall saman áður en ég kom að erindinu. Ég sagði honum að það væri bókstaflega ekkert að mér nema smá ímyndunarveiki sem er holl í hæfilegu magni, sérstaklega ef hægt er að virkja hana á skapandi hátt.

Mér hættir þó stundum til að gera of mikið úr ímynduðum veikindum mínum. Ég er oft búin að fá heilablóðfall og hjartastopp kransæðastíflu og krabbamein. En Kóvíd hef ég fengið í alvöru. Læknirinn sem kallaði sig Abbe og var frá Líbýu, menntaði sig í Bretlandi, átti tvær uppkomnar dætur sem báðar voru dósentar í enskum bókmenntum við sænska háskóla.

Ég sagði honum að ég væri að dunda mér við skrif á mínum eftirlaunum og hann spurði auðvitað eins og allir sem ekki kunna íslensku hvort ekki væri til eitthvað þýtt eftir mig. En svarið er alltaf það sama hjá mér. Semsagt nei. Það er ekki þess virði eins og pabbi hefði sagt.

En hvað um það, ég kom mér að erindinu, sagðist þurfa á læknisvottorði að halda sem staðfesti að ég væri með mótefni svo ég gæti flogið. Abbe varð pínulítið skrítinn á svipinn og tilkynnti mér alvarlegur í bragði að það nægði ekki til að stíga um borð í flugvél sem færi frá Svíþjóð. ,,Þú verður að vera með neikvætt kóvídtest, ekki eldra en 48 klukkustundir.“

Þessu reyndi ég að mótmæla eftir að hafa lesið allar leiðbeiningar Landlæknisembættisins hundrað sinnum og tsjattað tíu sinnum við Covid.is sem endanlega sannfærði mig um að einstaklingar með mótefni þyrftu ekki að  sýna neikvætt Kóvídtest við komuna til Íslands. En hann gaf sig ekki, hann Abbe, ég yrði að fara í Kóvídtest áður en ég legði upp í flug til útlanda.

Hér í Svíþjóð er ekki hægt að fara í Kóvídtest hjá heilsugæslunni nema vera með einkenni svo þessi þessi líbýski vinur minn bauðst til að útvega mér test á einkastofu fyrir þrjátíuþúsundkall og ef mér fyndist það of dýrt hefði hann önnur sambönd þar sem ég kæmist af með fimmtánþúsundkallinn. Svo gaf hann mér númerið hjá einkastofunni og sitt eigið. Ég mátti hringja í hann ef ég vildi notfæra mér þetta ódýrara tilboð hans.

Eftir töluverðan þrýsting af minni hálfu prentaði Abbe loks út vottorð frá rannsóknarstofu Háskólasjúkrahússins í Uppsölum sem staðfesti að ég væri með mótefni, stimplaði það með stimpli heilsugæslunnar, skrifaði nafn sitt undir en tók jafnframt fram í handskrifuðum sértexta að vottorðið gilti ekki sem kóvídtest sem var til óþurftar.  

  Daginn eftir þessa læknisheimsókn fékk ég bréf um að mæta í kóvíd bólusetningu en þar sem ég átti pantað far til Íslands áður, afbókaði ég dagsetninguna samkvæmt meðfylgjandi leiðbeiningum. Nokkrum dögum síðar fékk ég tilkynningu um að ég hefði ekki afbókað á réttan hátt, ég yrði að fara aftur inn í Bókaðir tímar á vef sameinuðu heilsugæslunnar 1177.se og afbóka þar með stafrænum hætti.   

Þar sem ég er vel tölvu- og símavædd nýti ég mér að sjálfsögðu þetta kerfi sem margir kvarta sáran undan, einkum þeir sem hvorki eiga snjallsíma né hafa nokkra tölvufærni. Ég þræddi mig inn í Bókaða tíma á mínum síðum til að afbóka rétt. Mér til mikillar undrunar kom í ljós að ég átti engan bókaðan tíma svo nú er ég aftur komin á upphafsreit. Ég get ekki afbókað bókaðan tíma af því ég á engan bókaðan tíma í bókuðum tíma.

Í bólusetningarbréfinu var líka gefið upp símanúmer sem hægt væri að hringja í ef maður lenti í stafrænum vandræðum. Ég hef hringt þangað nokkrum sinnum en alltaf kemur sama röddin sem segir að því miður sé enginn símatími laus og ég vinsamlegast beðin um að hringja aftur. Og aftur. Halló, Daniel Blake.

Daginn eftir allt þetta grímulausa grín fékk ég tilkynningu frá Icelandair um að það væri búið að breyta flugáætlun minni með millilendingu og löngum biðtíma í dauðri flughöfn í Osló. Ef ég ætlaði að nýta mér þessa breytingu á flugáætlun þyrfti ég líklega samkvæmt Abbe lækni að fara í Kóvídtest því nú átti ég að fljúga fyrsta legginn með SAS og þar eru aðrar reglur. Átti ég kannski að hringja í hann og notfæra mér ódýra tilboðið hans? Eða fresta ferðinni? Ég valdi seinni kostinn.

 Auðvitað fór ég í smáfýlu því ég hlakkaði svo til að koma heim í dag og opna litla veitingahúsið mitt á níundu hæð þar sem hægt er að horfa á gosbjarmann út um gluggann í kvöldmyrkrinu. En ég er orðin svo mikill búddi í seinni tíð að í stað þess að öskra og grenja eins og óhemja, tók ég þolinmæðina á þetta, æðstu dyggð allra dyggða.

Allt hefur þetta bakað mér og mínum mikil vandræði en líka kennt mér að baka í fyrsta sinn á ævinni. Svo loksins þegar ég kem heim mun ég bjóða sérvöldum gestum mínum upp á einstakt tertuborð á hjólum svona eins og á ítölsku veitingahúsi. Þessu hefði mamma aldrei trúað upp á mig. Verst að hún fær ekki að smakka.

   

 

 

   

Previous
Previous

Kast á landamærunum

Next
Next

Ýmis konar systrabönd