Gosklám

   Ég heyrði á dögunum að það væri tvennt sem fólk ætti að forðast ef það vildi eldast með reisn. Í fyrsta lagi að gæta sín á því að detta ekki og brotna. Í öðru lagi að forðast að leita til læknis. Hætt er við að fólk sem brotnar á efri árum komist ekki á fætur aftur. Og of tíðar heimsóknir til lækna er ávísun á lyfjaánauð. Þetta þýðir þó ekki að fólk eigi að hætta að ganga í ögrandi landslagi með ósléttu yfirborði þótt aldurinn sé að færast yfir. Hvað þá að hafa nokkrar íbúfen til taks í bakpokanum.

Iss, þetta er ekkert mál, dáldið strembið í byrjun en annars ekkert mál, segja allir sem hafa gengið á gosstöðvarnar. Nei, nei, þetta er ekkert mál sé maður með réttan búnað, tvöfalda  húfu, hettu og buff, nesti í góðu boxi og te á brúsa. Svo ég tali nú ekki um góða vini til að halda sér í þegar fer að halla undan fæti. En þetta er samt dáldið mál þegar kona er orðin náttblind að staulast þetta upp og niður niður brekkurnar í kvöldhúminu, hnjótandi um lausamöl og grjóthnullunga, þrátt fyrir höfuðljós.

Ég heyri hvíslið í elli kellingu sem segir að ef ég príla of mikið í hrjóstrinu, gæti ég þurft á þyrlunni að halda. En ég er í uppreisn gegn þessari kellingu og nóg er af þyrlunum á gosstöðvunum eins og sást best þegar ég loksins dreif mig þangað nær lyfjalaus. Eitt er að klöngrast þetta áfram í brekkum og bögglast í kargaþýfi. Annað að vera hugsanleg byrði á vinum sem spretta úr spori eins og veðhlaupahestar. Upp og niður gosstöðvarnar, fram og aftur blindgötuna.

Þrátt fyrir úrvals Hekluskó úr Fjallakofanum (Auglýsing), liðaðist hægri fóturinn stundum undan mér svo sambandið við heila rofnaði. Ég bjóst alveg eins við að brotna, fékk smá slysakvíða, sá fyrir mér blikkandi sjúkrabílinn við grunnbúðir og björgunarsveitarmenn með börur. Hugsaði þá til fyrstu ferðar minnar um hálendið þar sem fararstjórinn, fyrrum starfsmaður á geðdeild, sagðist hlaupa til byggða ef ég fótbrotnaði. Engir farsímar þá, ekki hægt að hringja í vin. Iss, þetta er ekkert mál.

Á leiðinni upp var bjart og heiðskírt en strekkingur og vindkæling. Varla hægt að draga upp síma  án þess að verða fyrir kali á fingri. Hélt að þumalfingurinn færi af mér eins mikilvægur og hann er í goskláminu. Loksins þegar mér tókst að munda símann almennilega, fór gosstrókurinn í fýlu og hætti að gjósa. Heppnin alltaf með mér. Ekkert varið í að taka mynd  af steindauðum svörtum gíg. Örstutt goshlé og nestið dregið upp en varla hægt að éta í strekkingnum nema með aðstoð nærstaddra. Umbúðir af flatkökum fuku í átt að nýrunnu hrauninu en umhverfisvænn vinur hirti upp ruslið eftir mig, meira að segja lífræna eggjaskurnina svo ég yrði mér ekki til ævarandi náttúruskammar.

Sannkölluð þjóðhátíð segja sumir, sjoppan er komin og pylsurnar rjúka út. Ritúal, helgiathöfn segja aðrir, leiksviðið fullkomið. Gamlir kunningjar frá því í den hittast þarna óvænt. Endurfundir fara víðar fram en við nálarstungu í Laugardalshöll. Og já þetta er heligathöfn, eldurinn sjálfur er líf og dauði, fæðingahríðir og  dauðahryglur á víxl. Andardráttur eilífðarinnar. Við söfnumst saman við eldinn, þennan rosalega arin sem gott er að orna sér við. Gígurinn sjálfur galopinn tröllapottur, kraumandi nornaketill sem rífur sig upp með ógnarlogum og sogast svo niður í undirdjúpin. Goshegðunin hefur breyst, geðhvarfasýkin aukist. Við sveiflumst upp og niður gosskalann.

 Í ljósaskiptunum verður þetta sjónarspil að leikmynd fyrir óperu, gott ef ekki Wagner, norræn kynngimögn, niflungar og valkyrjur, edda og snorri, allt í einni kös. Og áhorfendur  sitja kringum sviðið eins og grikkir til forna í Epidavros, hundruðum saman til að horfa á reiði goðanna og smæð mannanna. Sumir hafa farið níu sinnum, aðrir fimm sinnum, ég bara einu sinni. Og í kvöldljósinu umbreytist allt, vellandi svart hraunið verður rauðglóandi skepna, slöngudreki sem skríður fram af þunga og ekkert fær stöðvað.

 Ég fór alveg niður að hraunbrúninni til að hlýja mér við eldstæðið eftir vindkælinguna, fá líf í fingurna svo ég gæti verið eins og allir hinir og kaffært sjálfa mig með gosmyndum, fyrst ég get ekki kaffært mig og aðra með endalausum barnamyndum og ekki einu sinni kattamyndum. Fæ ekki að hafa kött til að hlýja mér á hérna í Babel. Óréttlæti. Kæra til mannréttindanefndar heimsins.

 Og svo koma menn með grímur og bjöllur og hrópa gas, gas, þó ekki alveg sturlaðir eins og þegar Sturla varð fyrir gasinu hér um árið. Ekki vil ég deyja úr gaseitrun þarna á óperusviðinu, hleyp í ofboði upp úr dældinni hlýju. Og enn hamast og gýs skepnan. Í mestu hviðunum rignir gjóskunni yfir okkur. Gígurinn hraunar yfir lýðinn í mesta aðdáunarkastinu, mesta tryllingnum.

 Svo fæ ég ekki nóg þegar ég kem heim um miðja nótt, fer með kíkinn út í glugga eftir ilmbað og kertaljós, fylgist með gosinu frá annarri hlið, ætla aldrei að sofna, kveiki svo á vefmyndavélinni með morgunkaffinu og tel mínúturnar milli hviðanna. Get ekki hætt að horfa á þessa seríu, þá bestu þessa dagana, hámhorfi og klámhorfi.  

Iss, þetta er ekkert mál, dáldið strembið í byrjun en annars ekkert mál. Ég brotnaði ekki, hef ekki þurft að leita til læknis. Er samt pínu aum í annarri mjöðminni. Tek kannski þyrluna næst bæði fram og tilbaka. Ég ætla að eldast með reisn og reyna að sleppa pillunum.

 

 

Previous
Previous

Ofbeldi er ómenning

Next
Next

Sósíalismi í verki