Sósíalismi í verki
Við vitum hvernig fór þegar mennirnir ætluðu að reisa hús sem næði alla leið til himna. Úr varð Babelsturninn þar sem allt mannkyn átti að búa og tala sama tungumálið. ,,Þar með verðum við frægir en tvístrumst ekki um alla jörðina“ eins og segir í 1. Mósebók. En guð reiddist mönnunum fyrir hrokann og sundraði þeim og tungu þeirra. Upp frá því hefur mannkynið verið tvístrað út um allar jarðir og talað ýmsum tungum.
Þessa sögu mætti heimfæra upp á margt í fari mannanna og sögu mannkyns eins og sósíalismann, þessa þrá manneskjunnar eftir efnalegum jöfnuði og réttlæti undir einu stóru þaki sæluríkisins. En við vitum öll hvernig fór fyrir sósíalismanum og hugmyndafræði hans ekki síst eftir að hann breyttist í gallharðan og geldan kommúnisma eins og í Sovétríkjunum forðum daga. Þar héldu leiðtogarnir að þeir væru guð, nokkuð sem guð gat ekki fellt sig við.
En trúin á sósíalismann er ekki dauð. Ekki á Íslandi. Nýir leiðtogar spretta fram á sjónarsviðið og reyna að telja alþýðunni trú um að enn sé hægt að velta auðvaldinu úr sessi með verkalýðsbyltingu. Gott og vel en hvernig á sá sósíalismi að vera í verki? Sú spurning er svo stór að hún er á við heilan Babelsturn.
Ég hef alla tíð talið mig vera sósíalista og reyndar bý ég núna í sósíalískri kommúnu sem er staðsett í háum turni. Og í þessum Babelsturni býr margt fólk af ýmsum gerðum sem talar fjölmörg tungumál. Í lyftunum, á göngunum og í þvottahúsinu eru heimsmálin töluð, arabíska, hindí, mandarín, auk fjölda annarra. Þegar ég flutti hingað héldu margir að ég væri orðin öreigi ef ekki öryrki, því í turninum og nágrannaturnunum er þó nokkuð um félagslegar íbúðir í eigu borgarinnar og Öryrkjabandalagsins.
Mörgum Íslendingum, ekki aðeins þeim sem aðhyllast hægri viðhorf, heldur jafnvel fólki með sósíalískar skoðanir finnst það alger niðurlæging þegar kemur að búsetu og lífskjörum að þiggja aðstoð af félasglega kerfinu. Neðar kemst maður ekki, það er hinn fullkomni ósigur. En ég er hvorki öreigi né öryrki þótt ég búi í hótelíbúð eins og Marta smarta orðaði það. Hótelíbúð nota bene sem ég leigi sjálfri mér.
En þótt ég sé ekki öryrki er ég mikið fyrir öryggi og turninn minn er öruggur staður til að vera á líkt og hin eina sanna brimborg. Turninn minn er ekki bara klettur sem brimið brotnar á heldur heill heimur með tilheyrandi útsýni yfir náttúru og mannlíf svo ekki sé minnst á gosstöðvarnar. Í turninum búa Íslendingar og útlendingar, innflytjendur og flóttamenn, fólk með alls kyns fötlun og þroskaskerðingu, aldraðir ellilífeyrisþegar, atvinnulausir, mennta- og listamenn á öllum aldri og af öllum kynjum.
Turninn er þversnið af heiminum og þeim fjölbreytileika sem einkenna nútímann og varla verður komist hjá úr þessu. Til að búa í sátt og samlyndi í þessum heimi þurfa allir að fylgja húsreglum, taka tillit til hver annarra, panta sér tíma í þvottahúsinu og ganga hægt um gleðinnar dyr. Engar undantekningar eru veittar frá þeim reglum, ekki hægt að klíkast í þvottavél sem er bókuð fram í tímann eða fleygja óflokkuðu rusli fram af svölunum.
Oftast tekst þessi sósíalíska sambúð með ágætum, jafnvel þótt stöðugir flutningar séu á íbúum, jafnvel yfir landamærin einu og sönnu. Sumir deyja langt fyrir aldur fram úr einhverjum krankleika aðrir deyja úr elli. Hér leigir fólk um langa hríð eða um stundarsakir og sumir eru farfuglar, koma á vorin, fara á haustin eins og ég sem bý í tveimur löndum. Og nú er ég komin í hússtjórnina sem er sjálfsögð þegnskylda en engin nauðung, sósíalisminn í verki. Ég hef haft ótal tækifæri til að kynnast fólki og ólíkum kjörum þess því það er ýmislegt sem mæðir á stjórn húsfélagsins.
Stundum verður mér hugsað til hugmynda sósíalista eins og Alexöndru Kollontaj sem sá fyrir sér hvernig best væri að byggja fyrir alþýðuna í framtíðarríki sósíalismans. Hún kynnti Lenín hugmyndina um sósíalíska sambýlið með barnagæslu og mötuneytum, nokkuð sem sænskir sósíaldemókratar prófuðu síðan á blómaskeiði þjóðarheimilisins á fimmta áratug síðustu aldar. Í því sambýli gátu íbúar annað hvort borðað í mötuneyti á jarðhæðinni gegn vægu gjaldi eða látið senda sér mat upp í íbúðirnar með sérstakri matarlyftu. Því miður er ekkert mötuneyti í mínum turni en upphaflega var samkomusalur á efstu hæð svo íbúar hússins gætu fagnað afmælum sínum eða haldið veislur af öðru tilefni.
Þegar ég flutti hingað í turninn úr miðbænum fann ég að sumir vorkenndu mér. Þeim fannst ég hafa misst eitthvað, að lífsgæði mín hefðu minnkað. Þeir héldu kannski að ég væri gjaldþrota og komin í félagslega kerfið, að ég væri orðin að aumingja. Sannleikurinn er sá að ég hef aldrei haft það betra, bankarnir eiga mig ekki lengur. Launin mín fara ekki í himinháar afborganir af lánum, ég þarf ekki að fylla óþarfa fermetra með innréttingum og húsgögnum, punga út óheyrilegum upphæðum í viðhald eða yfirleitt hafa áhyggjur af eignaumsjón.
Í mínum Babelsturni eru nágrannarnir svo margir að það tekur ekki að fara í deilur við þá þótt eitthvað fari úrskeiðis og reyndar eru litlar sem engar truflanir af nágrönnunum, miklu frekar hlýja, vinsemd og hæfileg nálægð. Guð kann ágætlega við íbúana og hefur ekki þurft að lækka í þeim rostann. Hán treystir stjórn húsfélagsins fyrir hrokalausum sósíalisma þar sem allir fá að tala sitt tungumál í friði.