Við búum á Norðurpólnum
Ég fór hringinn á dögunum á gömlum Yaris með æskuvinkonu. Hef ekki oft ekið hringinn og allra síst upp úr miðjum maí. Vegirnir voru auðir bæði af fólki og snjó en um leið og stigið var út úr bílnum áttaði ég mig á að þetta land er í raun á Norðurpóli jarðar, ekki skammt frá honum, heldur beint ofan á honum.
Um leið og komið var yfir Holtavörðuheiðina tók Hrútafjarðargarrinn við og nísti okkur inn að beini í covid biðröðinni við Staðarskála þar sem hleypt var inn í hollum á kamrana. Hitamælirinn lafði þetta í 1 - 2 stigum en á heiðum uppi fór hann gjarnan niður fyrir frostmark. Kuldaskjálftinn skánaði ekki fyrr en í Vaðlaheiðargöngum en þar er alvöru Miðjarðarhafsloftslag enda rukkað vel fyrir það.
Dúðun var eina ráðið í þessari ferð en fyrsti næturstaðurinn var auðvitað í Köldukinn, hvar annars staðar? Þar var ekkert að sjá út um gólfsíða og glæsilega gluggana í hönnunarhúsinu í Svörtuborgum annað en kuldabólstra á himni, grágul túnin og hvort sitt parið af lóu og spóa sem norpuðu í grassverðinum nýbúin að hittast á Túnder.
Mér skilst að það sé útsýni út á Skjálfanda þegar sumarið mætir fyrir alvöru og kólgubakkarnir hverfa. En húsið var unaður, hlýtt og ógurlega smart, allt hannað niður í frumeindir. Eina sem stakk í stúf voru Ikeapottarnir. Besta sturta sem ég hef staðið undir, undurmjúk rúm fyrir baunaprinsessur og fegurð í hverju handbragði.
Ég þori varla að segja það en við skruppum alla leið norður undir heimskautsbaug og heimsóttum hugrakka vinkonu sem býr á Raufarhöfn. Þar var svo kalt að ekki sást sála á ferli. Ég bjóst við að mæta ísbirni á bensínstöðinni þegar ég tékkaði á olíunni á bílnum svo hann bræddi ekki úr sér. Ég er haldin þeirri áráttu að vilja helst setjast að á öllum stöðum sem ég kem til. En ekki á Raufarhöfn, vona að ég verði ekki smánuð fyrir að viðurkenna það. Tek ofan fyrir hinni hugrökku sem bauð okkur í Spaghetti Carbonara í gamla kaupfélaginu.
Til að fá í okkur hita eftir volkið við heimskautsbaug keyptum við okkur inn í sjóböðin á Húsavík dýrum dómum. Og það var alveg þess virði eða allt þar til konan í afgreiðslunni sagði okkur á leiðinni út, að við hefðum verið óheppnar, böðin væru því miður ekki eins heit og þau ættu að vera. En við fundum ekki fyrir því, okkur var svo kalt fyrir að við létum hlandvolg böðin nægja og breyttumst í seli, aðeins hausinn upp úr söltu vatninu.
Eftir gasalega huggulegan dinner í hönnunarhúsinu þar sem við hvorki grilluðum né fórum í pott af ástæðum sem hér hafa verið margtuggðar, hélt ferðin áfram næsta morgun. Við brunuðum inn á öræfin, eyðilandið sjálft, snjóalög yfir öllu, þokuloft og ísaðar heiðatjarnir. Endalaus víðátta þar sem ekkert líf var að sjá, ekki einu sinni vottur af Bjarti að þráast við.
En Yarisinn, 16 ára jálkurinn sem átti að fara í pressuna í fyrra, hafði þetta af. Hann lenti sprækur á Héraði þar sem loks glitti í siðmenninguna. Þar var gert stutt stopp til að afhenda listaverk en síðan var lagt á enn eina heiðina, þá allra erfiðustu, Fjarðarheiðina. Af hverju eru ekki komin göng? Yarisinn fór þetta í öðrum gír upp verstu brekkurnar en náði sér svo á flug á háheiðinni og rann niður á Seyðisfjörð eins og montin jeppadrottning.
Þar tóku við miklir endurfundir með dásemdarmat. Íslensk gestrisni og íslensk fyndni til skiptis. Og síðan heilsuhæli í fjórar nætur hjá rausnarlegum bróður og mágkonu þar sem sárin voru könnuð, bæði eftir skriðuföllin og bernskuna. Við ræddum um hörkuna sem viðgekkst gagnvart börnum í þessu harðbýla landi þar sem eina alvörudyggðin var að slíta sér út.
Seyðisfjörður er deigla, safn af svo mörgu, gömul heimsborg, vel varðveitt timburhús, minjar um síldarár, El grillo undir Norrænu í höfninni, Lunga lýðháskóli og svo heimskonan Þóra í Haföldunni. Kringum Þóru ríkir alltaf alþjóðlegt andrúmsloft, hún er manneskja sem opnar öll sín hús og safnar að sér fólki til að njóta matar og samveru. Hún bauð í klassíska soðningu með hamsatólg, saltfisk frá Borgarfirði eystri sem við gæddum okkur á í litríkri borðstofunni undir Bjólfinum.
Er þetta byggilegt land? Heimsókn til skógarvarðarins í Hallormsstað fullvissar okkur um að svo sé. Með honum förum við í gönguferð upp á klettabrún ofarlega í þéttum skóginum með útsýni yfir gruggugt Lagarfljótið. Við höldum lítið vorblót, skálum í freyðivíni og mér verður kalt á höndunum í kvöldsólinni. Kærasta skógarvarðarins, enn ein vinkonan, réttir fram fallega handprjónaða vettlinga og mér hlýnar strax. Fiskisúpa í húsi skógarvarðarins yljar enn frekar ásamt gömlum ofni sem kveikt er upp í með raunverulegum eldivið. Umræður lifna í samræmi við hitastigið. Þeir spá sumri eftir helgina, hafði vinkonan eftir áreiðanlegum heimildum.
Strandvegurinn verður fyrir valinu á leiðinni suður, því Öxi er ekki Yarisfær. Við skellum okkur gegnum Fáskrúðsfjarðagöng. Og mikið eru þau falleg litlu þorpin sem kúra undir bröttum hlíðum, Fáskrúðsfjörður með frönskum götuheitum, snyrtilegur Stöðvarfjörður og bjargvætturin Breiðdalsvík sem býður okkur banhungruðum upp á djúpsteiktan þorsk beint úr netum sjómannsins. Fyrir lokasprettinn nestum við okkur upp með Goðaborgarharðfisk í frumlegasta kaupfélagi landsins. Ég dáist að fólkinu sem býr þarna enn þrátt fyrir kvótarán, fámenni og einangrun.
Sunnan Vatnajökuls standa hótelin auð eftir heimsfaraldur, varla einn túrhest að sjá. Jakarnir á Jökulsárlóni hafa aldrei verið jafn bláir og Hvannadalshnjúkur glampar í fullum sólarskrúða en aðeins stutta stund. Eftir andartak keyrum við inn í kolsvart óveðursský. Landið hverfur og grenjandi haglið lemur gamla Rauð eins og vélbyssa. Allt í einu birtist stærðarinnar skepna út úr suddanum, ógnvekjandi og voldug, Lómagnúpur.
Við brunum yfir sandana til að loka hringnum, náum síðustu kvöldmáltíðinni við lygna Rangá hjá rausnarlegri systur og mági. Segjum ferðasögur, sýnum myndir úr ferðinni, tölum um vorkuldann sem er á undanhaldi og Maríuerlurnar sem koma árlega í sitt hreiður undir þakskegginu. Brátt lokast hringurinn og það er bjartara yfir. En best að vera raunsær. Við búum á Norðurpólnum. Eða næstum því.