Fjölskylduboð
Þegar ég var barn í jólaboðum hjá ömmu minni og afa uppi í Holtum eins og hverfið rétt fyrir ofan Hlemm heitir, lá ég gjarnan í Öldin okkar og las hryllingssögur af börnum frá því fyrr á öldum sem voru svelt, barin og þrælkað út við erfiðisvinnu. Þetta voru oft munaðarleysingjar eða börn sem foreldrar gátu ekki alið önn fyrir og var því komið í fóstur, lentu á sveitinni eins og það hét.
Sum þeirra dóu af illri meðferð, önnur komust af við illan leik. Þessi börn áttu ekki fjölskyldu eða ættingja sem gátu bjargað þeim undan ofbeldinu og í sumum tilvikum voru það jafnvel foreldrarnir sem beittu þau þessu harðræði. En nú var öldin önnur og mér fannst ég geta hrósað happi í jólakjólnum með magann fullan af rjómakökum að vera ekki munaðarlaust barn, ég átti fjölskyldu. Mér var borgið.
Að eiga fjölskyldu er þó engin ávísun á hamingjusamt líf. Einn fyrrum nemandi minn í ritlist sagði að fjölskylda væri annað orð yfir harmleik. Mér þótti það vel að orði komist, það er viss sannleikur fólginn í því. Allur harmur manneskjunnar á upphaf sitt í fjölskyldunni. En sem betur fer eru til margs konar fjölskyldur og flestar hamingjusamar fjölskyldur eru eins á meðan þær óhamingjusömu eru óhamingjusamar hver með sínum hætti eins og segir í upphafsorðum skáldsögu Tolstoys, Anna Karenina.
Ég hef aldrei verið mikil fjölskyldumanneskja eða fundið fyrir sterkri fjölskyldukennd. Mér leiðist yfirleitt í öllum fjölskylduboðum, sérstaklega afmælis- og fermingarveislum. Fermingarveislurnar eru þó verri því enginn veit í alvöru hver tilgangur þeirra er annar en að að hrúga í sig veitingum og gefa gjafir. Í afmælisveislum er þó haldið upp á það að maður hafi fæðst og sé til. Það er ekki endilega víst að fólk eigi leið saman eða njóti þess að umgangast, þótt það tilheyri sömu fjölskyldu. Þess vegna hef ég misst af mörgum fjölskylduboðum.
Hins vegar fór ég í merkielgt fjölskylduboð á dögunum. Ég hafði ekki hitt þá fjölskyldu í 56 ár. Við vorum einu sinni fjölskylda í heila sex vetur frá sjö til tólf ára aldurs. Við hittumst á hverjum degi, í sama húsi, sömu stofu og sátum þétt saman. Við kynntumst hvert öðru vel, lékum okkur saman, héldum upp á afmæli, fórum saman í ferðalög og áttum okkar framtíðardrauma. Við litum upp til leiðtogans sem fór fyrir hópnum, kennarans sem var ígildi foreldris og leiðsögumanns. Við mynduðum tengsl, mislöng og misdjúp eins og gengur og gerist í öllum fjölskyldum.
Ég kom síðust í þetta fjölskylduboð, sat föst í óþolandi tráfíkjustöppu. Skammaðist mín eins og krakki sem kemur of seint í skólann. Það verður æ erfiðara að reikna út tímann sem það tekur að fara á milli tveggja staða í Reykjavík. Það sem átti að taka tuttugu mínútur, tók fjörtíu mínútur. Allir voru sestir við borð og komnir í hrókasamræður. Ég leit yfir hópinn, klökknaði sem snöggvast, óvænt viðkvæmni skaut upp kollinum. Allt í einu horfðist ég í augu við sex ár af æsku minni og tilfinningin var yfirþyrmandi. Þetta voru ekki bara gömul skólasystkini heldur fjölskylda mín, ein af mörgum. Þau voru í mér, ég var í þeim. Áður en ég settist báðu þau mig að geta upp á því hver væri hver. Ég fann fyrir eftirvæntingunni í hópnum, sá glettnina í augunum, mun hún gamla skólasystir okkar geta rétt?
Ég horfði á þessa fullorðnu einstaklinga, sem ég á ekkert sameiginlegt með lengur nema þennan bekk í barnaskóla, og reyndi að setja saman andlit og nafn eftir bestu getu og minni. Augun leituðu eftir myndinni af barninu í hverju og einu sem 56 árhringir höfðu næstum máð út. Ég þekkti tíu af tólf sem þótti ansi gott. Nú fékk ég tækifæri til að kynnast þeim aftur, ævi og starfi, sorgum þeirra og gleði. Ég hafði ekki hugmynd um hvað hafði drifið á daga þeirra í þessa rúmu hálfu öld sem liðin var frá síðasta fundi. Þetta var sterkur hópur sá ég, flestir höfðu menntað sig og átt farsælt líf, stofnað eigin fjölskyldur og áttu börn og buru. Þessir endurfundir minntu mig á hvað ég er í raun mikil félagsvera, hvað ég hef mikla þörf fyrir annað fólk og fjölskyldur, þótt mér hafi ekki tekist að stofna mína eigin fjölskyldu.
Ein besta vinkona mín segir að ég eigi svo létt með að umgangast fólk að ég hefði sómt mér vel sem félagsráðgjafi eða sálfræðingur. Jú, jú, ég er voða góð í að aðstoða aðra, vil öllum ægilega vel. Lærði snemma að setja sjálfa mig til hliðar og þjóna öðrum. Vera þerna. En þó ekki í drep. Ég er ekki jafn aumingjagóð og hann Gösta greyið sem Lukas Moodyson gerir skil í afar athyglisverðri sjónvarpsseríu sem nú má sjá á RÚV, hugmynd sem er innblásin af Fávita Dostóévskís. Rússarnir sko, þeir koma sterkir inn hér. Of mikil gæska, of mikil fórnfýsi getur leitt til niðurbrots og óhamingju. Hreinræktuð meðvirkni eins og hjá Gösta er ekki bara fyndin heldur verulega sorgleg.
En auðvitað er munur á meðvirkni og félagslyndi. Þótt félagslyndi mitt sé sterkara en meðvirknin, er ég líka óttalegur félagsskítur á köflum, finnst stundum gott að láta mig hverfa, vera ein inní skáp að hugsa og grúska og skammast mín alltaf fyrir að fara í felur, úr öllum fjölskylduboðum þegar mér hentar. Og það var einmitt það sem ég gerði þegar ég lá í Öldin okkar, ég fór úr jólaboðinu og hvarf aftur í aldir og las mér til óbóta um illa meðferð á börnum og bar saman við mín eigin kjör. En ég kem alltaf aftur og mæti í fjölskylduboðin þegar ég mögulega get. Öll möguleg fjölskylduboð því ég á margar góðar fjölskyldur.
P.s. Fjölskyldumyndin sem fylgir þessum hugleiðingum er úr nía ára bekknum okkar í Öldugötuskóla.