Menningarverbúð

Í heimsborginni London þar sem tæplega tíu milljónir manns búa, setti ég eitt sinn upp leiksýningu. Á frumsýningu var fullt hús eða sjötíu manns. Á aðra sýningu mættu níu og ég fékk sjokk. Gamall maður meðal áhorfenda kom til mín og þakkaði fyrir sýninguna sem hafði  snert hann. Verst hvað það voru fáir, sagði ég. Fáir, svaraði hann, í sumum leikhúsum koma bara tveir. Þú mátt vera ánægð með þessa níu.

 Ég er stödd á menningarvertíð vestur á Tálknafirði þar sem aðeins 270 manns búa. Ég  bý í menningarverbúð ásamt alvöru verbúðarfólki frá Póllandi og Tékklandi. Það er verið að gera tilraun með menningarhátíð í samkomuhúsinu Dunhaga, stóru tvílyftu timburhúsi sem er eitt af elstu samkomuhúsum landsins.

Dunhagi var vígður árið 1933 og gegndi ýmiss konar menningarstarfsemi á sinni tíð. Þar var bókasafn hreppsins, leiksýningar, músík og dansiböll og allt sem gerir lífið að menningu. Nú hefur þetta dásemdarhús fengið nýtt hlutverk. Á neðri hæðinni er rekinn veitingastaðurinn Café Dunhagi sem er í heimsklassa en á efri hæðinni fer menningarhátíðin fram í sal sem er engum öðrum líkur.

 Þetta verður lítil Menningarhátíð en með stóru Emmi. Eins og menn vita er M  umferðarskilti  sem stendur oftast við útskot á þröngum vegi þar sem tveir bílar geta mæst. Þetta M skilti má sjá hér um allan fjörð og stendur nú í mínum huga fyrir menningu. Enda er það þannig að í menningunni mætist fólk oft í litlu útskoti eins og í Café Dunhaga og á þar saman fallega og frjóa stund.

 Við byrjuðum s.l. laugardagskvöld með Dagný Maggýjar og sögu hennar Á heimsenda sem hún skrifaði um móður sína sem var ættuð  frá Langanesi sem sannarlega er á heimsenda en hún lést í sjálfsvígi eftir stutt og erfið andleg veikindi. Við sögðum fyrirfram að við yrðum ánægðar ef það mættu tíu manns en það komu þrettán menningarþyrstir íbúar af svæðinu og hlustuðu af einlægum áhuga. Héðan í frá getur sú tala aðeins hækkað. Um næstu helgi stígur Elísabet Jökulsdóttir á stokk ásamt mér.

 Ég var ekki fyrr komin hingað vestur með allt mitt hafurtask, rétt búin að opna skottið á Jarisnum þegar Jan hinn tékkneski renndi upp við hliðina á mér og bauðst til að bera inn farangurinn. Herbergið mitt er uppi í risi í einu stærsta steinhúsi plássins með útsýni yfir höfnina og athafnasvæðið sem eitt sinn iðaði af sjósókn og frystihúsalífi. Hinum megin í firðinum liggja lágvaxin fjöllin letileg og mosamjúk og spegla sig í morgunsólinni en verða roðagyllt þegar hún gengur til viðar.

 Á sama herbergisgangi býr pólska eðalparið Lesek og Monika, hann búinn að vinna hér í 15 ár og talar íslensku, hún nýkomin í fjörðinn og reynir að bjarga sér á þýsku. Saman deilum við eldhúsi og stóru baðherbergi og snyrtimennskan er í öndvegi. Í hádeginu þegar Lesek kemur heim úr silungseldinu bankar hann hjá mér þar sem ég sit önnum kafin við mín verbúðarstörf og spyr hvort ég hafi ekki verið að panta súpu? Leggur síðan rjúkandi pólska kjötsúpu á skrifborðið. Stuttu síðar kemur hann með eftirréttinn, heita jarðarberja- og rabarasaft og nýbakaða köku frá Móniku.

 Hingað á Tálknafjörð kom ég fyrst siglandi með strandferðaskipinu Esjunni árið 1965 til að fara í sveit og passa börn. Síðan hef ég reglulega heimsótt fjörðinn og heiðurshjónin sem fóstruðu mig út við ysta haf. En nú eru þau fallin frá og börnin sem ég passaði orðin að fullurðnu fólki fyrir löngu, jafnvel fullorðnara en ég sjálf. En jörðin stendur enn á sínum stað og þar sem bóndinn áður sló tún og engjar fyrir sínar mörgu kindur hefur skógræktin tekið við, landið klæðist nú grænni kápu sem bæði hlífir og hlýjar.  

 Þessi fjörður og Vestfirðirnir allir hafa seiðmagnað aðdráttarafl. Á hverju vori svona í lok apríl eða byrjun maí byrja ég öll að iða, ég bara verð að komast vestur. Fjöllin, þessi vandlega útskornu eilífðarfjöll hrópa og toga í mig: ,,Komdu vestur og vertu með okkur, við erum orðin svo gömul.“  Og ég sem var einu sinni barn í firðinum og starði löngum stundum út á hafið  þegar ég rak kýrnar fram á stekkinn við Fagradal, mig langar til að vera í selskap með þessum fjöllum þegar ég eldist. Mig langar til að verða ,,gamla konan og hafið“ eins og ein ágæt vinkona á Patró orðaði það á dögunum.  

 Eins og sannur flækingur á ég mér draum um að setja niður lítið hús með stórum glugga sem snýr út í sólarlagið. Sá gluggi er reyndar til og útsýnið er milljón króna virði og bráðum, já bráðum get ég kannski sest þar niður og orðið barn aftur. Ég held það hafi verið Picasso sem sagði að það tæki alla ævina að verða aftur að barni og það er einmitt hér í þessum firði sem ég finn að það gerist. Hér verð ég aftur sú sem ég var áður en lífið tók að stimpla mig í bak og fyrir. Hér get ég arkað um fjöll og móa, gengið hvítar fjörur, synt í flæðarmálinu stungið mér í heita laug. Já, hér er hægt að stinga af í spegilsléttan fjörð eins og Mugison söng í frægu lagi sínu.

 Af ást til Tálknafjarðar og Vestfjarða held ég áfram að vinna í menningarverbúðinni, af því að umferðarskiltið M hefur fengið nýja merkingu. Þessi menningarvertíð gefur ekki mikið í aðra hönd ekkert frekar en listir og menning yfirleitt. En hún lyftir kannski andanum hjá þessum þrettán plús sem mæta og þótt þeir verði ekki nema tveir getur samtalið alltaf farið fram, þetta mikilvæga samtal milli þess sem skapar og hins sem tekur við. Velkomin í Tálknafjörð og ekki gleyma að beygja.

 

   

Previous
Previous

Mynd af Þjóðleikhúsinu

Next
Next

Fjölskylduboð