Þökk sé þessu lífi

Í dag er ég 67 ára og hef sjaldan fundið til meira frelsis í huga og sál. Nú er ég komin á aflifunaraldur og fæ reglulegan aflifunareyri. Ég þarf ekki lengur að sækja um nein störf eða stöður enda hef ég aldrei fengið neitt af því sem ég hef sótt um jafnvel þótt heilu dómnefndirnar hafi metið mig hæfa. 

Málið er að ég passaði aldrei inn og hef aldrei gert, ekki einu sinni þegar ég fæddist. Ég uppgötvaði tiltölulega snemma að enginn gæti lifað lífinu fyrir mig, að ég yrði bara að treysta á sjálfa mig, finna tilganginn með þessari tilvist sjálf og halda áfram að skapa sjálfa mig þrátt fyrir ýmsan mótbyr. 

Reyndar hafa bæði mótbyr og meðbyr fleygt mér langar leiðir en meðbyrinn hefur þó aldrei verið meiri en einmitt núna á þessum tímamótum. Ég er laus undan svo mörgum leiðindum sem við erum alltaf að basla við eins og vinnu- og húsnæðishark, svo ég tali nú ekki um skuldasöfnun. Ég er komin í mína ellikúpu, aðeins eitt herbergi með svefnkrók og er sátt. Segi bara eins og Quentin Crisp: ,,I like living in one room, I‘ve never known what people do with the room they are not in.“  

Málið er að herbergin í lífinu búa innra með okkur og þar eru margar vistarverur sem ég er enn að uppgötva mér til mikillar gleði. Allt líf hefst í einu herbergi og þaðan þenst það út og tekur á sig margskonar skringimyndir. Sjálf var ég getin í herbergi við Bragagötu í  febrúarmánuði 1953 líklega í kringum afmælið hennar mömmu þann nítjánda. Pabbi gaf henni mig í afmælisgjöf, þótt henni hafi eflaust oft fundist sú gjöf aðeins of stór pakki sérstaklega eftir að hann fór að þenjast út. Pabbi hafði nefnilega gefið henni ansi stóra pakka áður en ég kom til sögunnar. Aðeins 22ja ára var mamma búin að eignast þrjú börn, þar á meðal tvíbura. Ég var fjórða barnið í röðinni og hún var aðeins 24ra ára gömul þegar ég leit dagsins ljós. Síðan eignaðist hún tvö börn í viðbót. 

Það er eiginlega fyrst núna þegar foreldrar mínir eru horfnir að ég átta mig á álaginu sem fylgdi því að koma þessum orkufreka barnaskara til manns. Og það er fyrst núna sem ég hef fyrirgefið foreldrum mínum fyrir að hafa ekki verið þeir sem mig dreymdi um að eiga þegar ég var barn. Það tók stundum á að vera samlokubarnið í hópnum, klemmd á milli þeirra elstu og yngstu. Í lífi hverrar manneskju eru foreldrarnir stærstu áhrifavaldarnir, þeir móta hugsun okkar, tilfinningar og hegðun fram eftir öllum aldri. Það hefur tekið mig alla ævina að vinna úr þeim áhrifum. Í dag, þessum 67 árum síðar, er ég foreldrum mínum fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa gefið mér þetta einstaka líf. Verst að ég gat ekki þakkað þeim almennilega meðan þau lifðu. En ég geri það nú, þökk sé þessu lífi.

Previous
Previous

Nýja árið er byrjað