Nýja árið er byrjað
mánudaginn ellefta janúar
utan við gluggann ríkir hvítur vetur
hvítur vetur í garði
stuttur dagur en nóttin löng og svört
með hverri nóttu herðir frostið
allt stirðnar og fellur í dá
kyrrðin alger allt um kring
rofnar þó af og til
þegar blásarinn ljær húsinu yl
annars þögnin ein
spor í snjónum
líklega þófi eftir rauðan ref
alveg upp að dyrum
og svo spor eftir dádýr
alltaf spor eftir dádýr
eftir hverja nótt
og ég sjálf
full af draumum og þrám
sem kvikna í næði
fallegt orð næði
það næðir ekki um mig í vetrarríkinu
ekki enn
ekki enn
janúar er mánuður til að fara í híði
annað fallegt orð híði
næði í híðinu
ligg á hugmyndum
leyfi þeim að dafna undir feldi
þegar snjóa leysir og frostið dvínar
koma þær í ljós
líklega í mars
þá raða þær sér upp á hvítan pappír
líkt og perlur á bandi
líklega upp úr miðbikinu
þegar vorið gægist inn í garðinn