Búin að kjósa

Ég er komin úr minni Ameríkuferð en skaust rétt sem snöggvast til Íslands til að hitta tannlækni og til að kjósa. Já og gera ýmislegt annað sem engum kemur við nema mér. Það var ekkert að tönnunum í mér, ekkert frekar en fyrri daginn og bara gaman í kjörklefanum með öllum stimplunum. Ég kaus þessa á myndinni. Hún er gersamlega óþekkt og nærri því ósýnileg í þjóðfélaginu. En hún er ljóshærð eða var það einu sinni og bláeygð.

Hún er einhvers konar útgáfa af fjallkonunni, klæðist þó sjaldan bláum kjólum, er komin í grátt eins og sjá má en grái liturinn fer henni vel. Hún hefur búið í blokk og býr enn í blokk og hefur látið til sín taka í húsfélaginu og jafnvel verið formaður þar. Hún er vel menntuð og hefur gegnt mörgum störfum í þjóðfélaginu en hefur þó hvorki setið á þingi né verið ráðherra sem er auðvitað ókostur en hún hefur samt unnið á Alþingi.

Hún minnir pínulítið á Vigdísi en hefur þó aldrei kennt frönsku í sjónvarpinu og ekki verið leikhússtjóri en hún kann spænsku og er núna að læra pólsku til að vera í betra sambandi við 15% af íslensku þjóðinni. Hún hefur ekki heldur skrifað fræðibækur eins og Guðni Th en hún er vel ritfær og afskaplega fróð og vel lesin kona, einn helsti notandi bókasafna á Íslandi, les minnst fimm bækur á viku. Hún hefur ekki beint ritað undir neinar viljayfirlýsingar í Suður Ameríku en hún hefur hitt alls konar fólk í Mið-Ameríku og látið þar ýmis orð falla um íslenskar stofnanir sem Utanríkisráðuneytið myndi aldrei skrifa upp á.

Hún er ekki að skattyrðast út í aðra frambjóðendur eins og svo margir á samfélagsmiðlum. Ástæðan er einföld, hún er ekki á samfélagsmiðlum og les ekki fréttir. Ég þurfti til dæmis að segja henni frá Singapore þotunni sem féll tvo kílómetra í háloftunum á dögunum en henni fannst það ekki merkilegar fréttir. Hún situr alltaf með öryggisbeltið spennt allan tímann meðan hún flýgur. Það er visst öryggi í því.

Nei, hún les ekki allan óhróðurinn sem látinn er falla um aðra frambjóðendur og tekur ekki þátt í svívirðilegri orðræðunni um keppinautana enda lítur hún ekki á þá sem keppinauta, þeir eru vinir hennar og hún ber hlýhug til þeirra allra, þótt hún sé búin að fá smáleið á friðarsinnanum.

En þótt frambjóðendurnir séu vinir hennar er hún ekki að bjóða þeim heim til sín í kampavínsveislur enda er íbúðin hennar svo lítil að hún kemst varla fyrir þar sjálf, hvað þá heilt barnabarn. Hún er eldklár og víðsýn og helst vildi sjá transforseta á Bessastöðum en því miður er ekkert transfólk í framboði núna nema það leynist bakvið öll fallegu brosin og grímurnar.

Getur hún orðið forseti? Eða er hún kannski bara svindlari, þykjustu frambjóðandi sem hefur ekkert fram að færa? Hefur hún nægilega mikið vit á borðsiðum og borðvínum hafandi búið í blokk mest alla sína ævi og borðað nammi milli mála? Hún getur eflaust talað við fulltrúa erlendra ríkja en er hún með rétt leyfi til þess? Og svo er það þetta með málskotsréttinn, verður það ekki eini rétturinn sem hún mun nota af því hún kann ekkert annað? Verður það ekki bara pizza í öll mál, algjör hægðatregða og kaos í samfélaginu þegar þjóðin þarf stöðugt að vera að greiða atkvæði um öll vafasömu frumvörpin á Alþingi?  

Ég veit það ekki en ég kaus hana samt af því ég er þjóðin og þjóðin er ég. Sumir myndu eflaust segja að ég hefði ekkert með þetta að gera, flúin úr landi, farin að halda við aðra þjóð, rosalega leiðinlega þjóð sem þarf ekki að standa í þessum látum að kjósa sér forseta. Auðvitað læðast að mér vissar efasemdir, hvað hefur hún eiginlega fram að færa annað en að vera svolítið lík Vigdísi? Það þekkir hana enginn, hún er algjörlega óskrifað blað, hefur aldrei skrifað neitt þótt hún sé ritfær, ekki einu sinni glæpasögu, hver er hún eiginlega?

Já, ég er komin úr minni Ameríkuferð og dreif mig svo heim í konungsríkið eftir að búið var að skoða í mér stellið og atkvæðið komið í kassann. Svei mér þá, það eru ekkert nema konur í kringum mig, tannlæknirinn er kona, minn forseti er líklega kona, á leiðinni hingað heim voru bæði flugstjórinn og flugmaðurinn konur en ég veit þó ekki hvort þær voru á túr. Halló Ari Eldjárn!

Konunum tókst að lenda sjálfu Bolafjalli mjúklega á Arlanda flugvelli en auðvitað gat kvenflugstjórinn ekki lagt vélinni rétt upp að rananum svo það þurfti að toga vélina á réttan stað. Það er sem ég segi, þótt konur séu út um allt og bókstaflega að leggja allt undir sig, gera þær líka skyssur. Sérstaklega ef þær eru með fyrirtíðaspennu. Spurningin er hvort ég hafi gert skyssu og ekki kosið rétta konu?

 

Previous
Previous

Kósýkvöld á Bessastöðum

Next
Next

Rétt og röng ritskoðun