Kósýkvöld á Bessastöðum

Ein af mætustu konum Íslands, hún Hafdís í Kramhúsinu, hringdi í mig á dögunum  til að bjóða mér í svokallaða rauðvínsgufu. Hún hélt að ég væri enn á landinu og vildi endilega að ég hitti leikfimissystur mínar til að spá og spekúlera. Í leiðinni sagðist hún hafa verið að hlusta á útvarpsþáttinn Bréfberinn sem hvarf  þar sem ég var einn af viðmælendum.

„Ég vissi ekki að þú hefðir verið Maóisti,“ sagði hún og hló sínum dillandi hlátri. „Þú ættir að skrifa bók um það.“ „En ég er löngu búin að því,“ sagði ég. Hún kom út árið 2009 og heitir Blómin frá Maó. Það hafði farið framhjá henni eins og mörgum öðrum af því ég tilheyri ekki kúltúrelítunni og pabbi minn var ekki vörubílstjóri.

Ég nefni þetta hér af því að í þessu viðtali segi ég frá því þegar ég álpaðist inn í Maóistasamtök árið 1974 og fylltist hræðilegum kvíða og angist yfir öllum þeim verkefum og skyldum sem á okkur saklaus ungmennin voru lögð. Við áttum ekki bara að gera byltingu heldur frelsa fólk til réttrar trúar. En ég var bæði þæg og prúð og hélt áfram í söfnuðinum þrátt fyrir kvíðann og lét gabba mig út í alls konar vitleysu. Allt í einu var ég orðinn pólitískur kandídat sem samtökin reiddu sig á.

Ég var komin í klípu og ræddi við mína nánustu vinkonu um útgönguleiðir. Hvernig kæmist ég út úr þessari vitleysu með sæmd án þess að móðga neinn, án þess að verða fordæmd fyrir smáborgaraskap og linkind? Ég sem tilheyrði ekki einu sinni öreigunum, hafði ekki rétta stéttarafstöðu og gat því ekki verið nógu stéttvís. Eini möguleikinn til að lifa þessa pólitísku vist af, væri að hætta öllum frekari hugleiðingum um framhaldsnám og gerast verkakona, þá yrði ég kannski þóknanleg miðstjórninni og formanninum.

Ein af leiðunum sem mér fannst ákjósanleg var að borga mig út, ég yfirgæfi félaga mína af kurteisi en borgaði mánaðarlega í sjóð samtakanna, yrði stuðningsmaður númer eitt. Gæti svo haldið frjáls áfram á minni braut og látið drauma mína rætast um að verða það sem ég vildi verða, menntuð manneskja fyrst og fremst.

Þessi reynsla mín af pólitísku starfi varð til þess að ég tók aldrei aftur þátt í stjórnmálasamtökum að Kvennaframboðinu í Reykjavík 1982 undanskildu. Ég skildi aldrei þessa leiðtogadýrkun, þennan átrúnað á formennina. Mörg okkar hafa mikla þörf fyrir foringja og sú þörf birtist nú af alefli í aðdraganda forsetakosninga. Hver á að vera leiðtogi þjóðarinnar, sameiningartáknið á víðsjárverðum tímum?

 Mér verður auðvitað hugsað til Katrínar. Hvernig datt henni í hug að bjóða sig fram? Kemur iðandi ormagryfjan sem kosningarnar hafa snúist upp í á óvart? Var ekki einboðið að framboð hennar yrði umdeilt í ljósi stjórnmálaferils sem var ekki alltaf til fyrirmyndar og alls ekki í samræmi við boðaða stefnu hennar sem formaður í samtökum vinstri manna?

 En Katrín er sterk, hún hefur metnað fyrir hönd þjóðar sinnar og nú þegar hún hefur þjónað henni sem stjórnmálamaður í sautján ár, á hún það auðvitað skilið að verða forseti. Hún er frambærilegri en flestir hinna sem bjóða sig fram, hún er með allt sem þarf í djobbið ekki síst þekkingu á stjórnskipan landsins. Og reynslu, reynslu, reynslu.  

 Eða er það kannski þannig að Katrín er orðin langþreytt á argaþrasi stjórnmálanna. Vill hún ekki bara losna úr þessu vonlausa samstarfi við afturhaldsöflin og setjast í helgan stein á Bessastöðum og eiga þar kósýkvöld með fjölskyldunni næstu tólf árin að minnsta kosti og skrifa krimma? Öruggur staður til að vera á.

Ekki lái ég henni það, ekki getur hún borgað sig út úr þessai klípu eins og ég ætlaði að gera á Maóistatímanum. Hvert ættu greiðslurnar að renna? Í flokkssjóði fyrrum samstarfsflokka? Nei, hún er hætt í stjórnmálum og á fullkomlega rétt á því að enda sinn feril á Bessastöðum og halda þar áfram að láta gott af sér leiða og vinna að þeim gildum sem þjóðin metur mest, gildum sem ég man ekki lengur hver eru.

Ég skil Katrínu mjög vel, það er kominn tími á að hafa það kósý, klippa á borða og halda snittuboð. Alla ævi hef ég verið að reyna að búa mér til kósý líf, hafa það gott einu sinni, leyfa mér að slaka aðeins á, vera ekki alltaf svona dugleg, þekkjast ekki boð allra sem vilja með smjaðri skítnýta mig til verka sem þau geta vel unnið sjálf. Athugið málfræðilegt rétt kyn.   

 Spurningin sem þó óneitanlega vaknar er eftirfarandi: Hvaða hagsmunir aðrir en kósýkvöldin liggja að baki framboðinu? Hvað stýrir för, hvíldarinnlögn frá stjórnmálum, ástríða eða metnaður? Eða bara síþreyta eftir allar málamiðlanirnar? Ég spyr bara af því ég er hvorki óviti né hálfviti heldur ofviti með gáfumannablæti sem hefur oft á tíðum komið sér illa. Það eru bara ofvitar sem vilja vita allt, ekki bara hálfan sannleikann, heldur allan.  

 Verst að komast ekki í rauðvínsgufuna hjá henni Hafdísi í Kramhúsinu og hitta þar naktar Pýþýjur sem sitja á blautum viðarbekkjum og spá í dularfulla gufuna eins og í Delfí forðum. Hver verður næsti forseti Íslands? Reyndar var það reykur en ekki gufa sem umlukti síbyljurnar þarna hjá véfréttinni í Delfí.  

En hvað um það, mikið var ég heppin að komast út úr argaþrasi stjórnmálanna á sínum tíma og finna aldrei þörf til að fylgja foringjum í blindni né verða foringi sjálf. Loksins er ég komin heim á mína Bessastaði og það er verulega kósý hjá mér þessa dagana þótt engar séu snitturnar.     

Previous
Previous

Gambúðarmenn á ferðalagi

Next
Next

Búin að kjósa