Gambúðarmenn á ferðalagi

Gambúð er nýyrði yfir yfir vissa tegund af fjarbúð og samansett úr orðunum gaman og saman. Þetta er mín persónulega þýðing á sænska orðinu „lustbo“ eins og gambúðarmaður minn kallar samband okkar. Önnur þýðing gæti verið glaðbúð, ekki síst núna í kjölfar gleðivikunnar. Fólk í gambúð hittist þegar það langar til að hafa gaman, leika sér og ferðast svo dæmi sé nefnt. Það ruglar að öðru leyti reitum sínum ekki saman.

 Eitt af því sem veitir mér mikla hamingju og gleði eru ferðalög, stutt sem löng, innanlands og utan. Og einmitt núna erum við gambúðarfólkið nýkomin úr ferðalagi og það um sjálfan Noreg sem er hér í næsta nágrenni við mig. Og það skal viðurkennt strax að ég er bókstaflega dolfallin yfir fegurð landsins.

Þetta var svo sem ekki í fyrsta sinn sem ég kom til Noregs, ég hef komið þangað mörgum sinnum áður, heimsótt Osló, Bergen, Þrándheim, alltaf í einhverjum vinnutengdum erindagjörðum eða til að heimsækja vini. En ég hef aldrei verið eins og venjulegur ferðamaður í landinu, aldrei leyft mér að ferðast um landið og hugsa til forfeðranna sem komu frá Noregi, fyrst á landnámstímanum og svo síðar meir í bisnesslegri erindagjörðum.  

 Einn forfaðir minn kom til Íslands 1776 þegar fyrstu hreindýrin voru flutt til Íslands og hann kenndi Íslendingum jafnframt á skíði. Hann var verslunarþjónn frá Hammerfest og fyrst langaði mig alla leið þangað, langt norður fyrir heimskautsbaug en hugnaðist ekki að keyra alla þá löngu leið og því settum við gambýlingarnir stefnuna á Álasund.

Við ókum þangað frá Svíþjóð í gegnum Guðbrandsdal og Geirangur, þann ægifagra stað og hrikalegan. Í Álasundi langaði mig til að sjá Jugendstílinn sem einkennir arkitektúrinn í borginni, en hann varð til eftir stórbrunann 1904 þegar bærinn var endurreistur í glænýrri mynd. Álasund er byggð á litlum eyjum og þaðan er geysifagurt útsýni til hafs og fjalla í allar áttir.  

 Ég tek undir með þeim löndum mínum sem skilja ekki hvers vegna forfeður okkar yfirgáfu Noreg  til að flytja norður í veðravítið og náttúruhamfaralandið sem elsku Ísland er og hefur nær alla tíð verið. Og enn síður skil ég hatrið á Norðmönnum sem ég hef skynjað allt frá barnsaldri hjá mörgum samlöndum mínum, hatur sem er vonandi á undanhaldi enda sprottið af fáfræði, hroka og minnimáttarkennd gagnvart frændum okkar.

Þegar ég var ung kona kallaði litla menningarelítan í Reykjavík höfuðborgina Osló stærsta sveitaþorp í heimi og hélt því fram að norska væri ekki tungumál og það væri engin alvöru menning sem gæti þrifist í svona púkalegu landi. Það væri fróðlegt að rannsaka hvaðan þessi viðhorf voru sprottin. Ég hef mínar grunsemdir. Skoðanastjórar hafa löngum verið til.

 Talandi um norska menningu, ég var ekki fyrr komin inn í Guðbrandsdal en ég fór að raula Grieg, söng Sólveigar auðvitað og ekki batnaði það þegar sjálfur dofrinn úr leikriti Ibsens um Pétur Gaut tók á móti okkur í sinni ljótu dofrahöll við þjóðveginn. Hann var auðvitað göldróttur og gekk í öll verk sjálfur með gólftusku í annarri hendi og sósusleif í hinni og þess á milli seldi hann minjagripi og afgreiddi bensín.

Það eina sem vantaði á þennan dofra var halinn en að öðru leyti var hann tröllslegur í útliti, líklega farandverkamaður austan úr Evrópu. En við sluppum fyrir horn og þurftum sem betur fór ekki að gista nema eina nótt í ljótri dofrahöllinni sem var þó ekki sem verst þegar upp var staðið. Allt er afstætt og hjá dofranum verður ljótt fagurt og fagurt ljótt eins og hjá nornunum í skoska leikritinu.  

 Þegar ég brunaði um frjósamar sveitir Noregs var eins og ég hefði lent í tímavél. Ég fór aftur í tímann, í átt að uppruna mínum, til forfeðranna sem eitt sinn bjuggu hér. Þessi tilfinning ágerðist stöðugt allt eftir því sem leið á ferðina, mér fannst ég þekkja þessar slóðir, hafa verið í sporum þeirra sem kusu að yfirgefa átthagana og hefja búskap á fjarlægri eyju í norðri.

Forfeðurnir voru auðvitað flóttamenn á sínum tíma, þeir flýðu aðstæður sem hentuðu þeim ekki og sjálf erum við til skiptis flóttamenn og ferðamenn, oft er munurinn sáralítill. Við ferðumst til að hvíla okkur frá hvunndeginum, verða fyrir áhrifum og innblæstri, endurnýja hugsunina. Og oftar en ekki flýjum við aðstæður til að forðast átök, hvort heldur ytri eða innri í þeirri von að finna lífi okkar betri farveg.  

 Þegar ég kom til Álasunds í draumaíbúðina mína fannst mér ég loksins vera komin heim, ekki til Íslands þótt margt minnti á Ísland í landslaginu kringum borgina, heldur heim til míns hjarta, til minnar sálar. Í Álasundi var allt að finna sem nærði huga minn, lítil heimsborg úti í hafi með sterkan heildarsvip af öllu því besta sem hægt er að finna í arkitektúr og hönnun.

Annars er ekkert að marka mig, alls staðar þar sem mér líður vel, þar sem fegurðin ríkir ein, finnst mér ég vera komin heim. Leitin að fegurðinni verður því endalaus uppspretta ferðalaga. En nú er ég aftur komin heim til mín og gambúðarmaðurinn heim til sín. Enginn veit hvar mig ber næst niður í leit að fegurðinni.

Fegurðin er reyndar alls staðar, jafnvel í ljótleikanum ef vel er að gáð. Og ekki vantar fegurðina í tungumálinu. Því er spurt, hvort er fallegra, orðið gambúð eða glaðbúð? Er gambúð ekki íslenskara en glaðbúð? Minnir glaðbúð ekki soldið á norsku, soldið púkó ef hugsað er út tónfallið? Alltaf jafn grunnt á fordómunum, ikke sant?        

Previous
Previous

Entertaining people

Next
Next

Kósýkvöld á Bessastöðum