Mótefnið dugar ekki á allt
Ég er eins og konan í áramótaskaupinu sem var að gera alla vitlausa með mótefnamontinu í sér. Ég er nefnilega með mótefni og var alltaf að tönnlast á því í haust sem leið þegar ég þurfti reglulega að vera innanum fólk. Hélt það myndi létta aðeins andrúmsloftið og gera mér auðveldara fyrir. En öllum var nákvæmlega sama eða öfunduðu mig kannski af mótefninu. Ekki veit ég svo gjörla. Það er að verða ár síðan ég veiktist af kórónuveirunni og samkvæmt nýjustu rannsóknum dugar mótefni ekki lengur en í átta mánuði svo ég held mér að mestu til hlés þessa dagana. Er ekkert að spranga að óþörfu grímulaus um götur og ganga að monta mig.
Ég veit ekki alveg hvar ég smitaðist af veirunni en líklega gerðist það í leikhúsi, á Dramaten í Stokkhólmi þar sem ég var að horfa á nýja uppsetningu á Hertogaynjan af Malfí eftir John Webster, samtímamann Shakespeares. Þetta var á alþjóðlega kvenréttindadeginum 8. mars 2020 og faraldurinn var staðreynd en ekki búið að loka leikhúsunum. Skömmu síðar var öllu skellt í lás og ég lagðist í rúmið. Fékk versta höfuðverk sem sögur fara af, viðbjóðslega vöðva- og beinverki en lítinn hita og átti ekki við neina öndunarerfiðleika að stríða, ekki fyrr en ég drullaðist í sturtu eftir veikindin. Þá fyrst fann ég fyrir afleiðingunum, ætlaði ekki að geta þurrkað á mér kroppinn, lyppaðist niður þreklaus og andstutt, já eiginlega eins og ég væri að fjara út. Ég fann til máttleysis og slappleika, sérstaklega í fótum og handleggjum, gat ekki hreyft þá með sama hætti og áður. Ég get ekki neitað því að ég fann til ótta, var það kannski svona að deyja? En ég hafði það loks af að þurrka mér og skakklappaðist upp í rúm aftur.
Ég náði mér tiltölulega fljótt og þakkaði það bæði hákarlalýsi forfeðranna úr Fljótunum og áratuga leikfimi í Kramhúsinu. Fór á stjá og lét reyna á líkamann en fann fyrir vöðvaverkjum langt fram eftir sumri ekki síst í gönguferð upp og niður hálendishryggina í Þórsmörk. Það sem þó brenglaðist algjörlega var lyktar- og bragðskyn. Eða öllu heldur, ég hætti að finna lykt, kveikti næstum í húsinu þegar ég var að elda, fann enga brunalykt af matnum í ofninum fyrr en ískraði í reykskynjaranum. Allur matur var vondur og bragðlaus. Ekkert bragð, ekki einu sinni salt. Sem betur fór komu bæði lyktar- og bragðskyn tilbaka smátt og smátt en þá brá svo við að ég fór að finna lykt sem enginn annar fann. Annað hvort sæta lykt af blómum eða rotnunarfýlu sem gaus upp af og til allt í kringum mig. Þessi ,,draugalykt“ eins og hún er kölluð hvarf á nokkrum dögum og skynfærin urðu eðlileg á ný.
Núna aftur á móti er ég komin með ofurlyktarskyn sem lýsir sér þannig að ég finn lykt af því sem ég les og sé. Ef ég er að lesa um mat þá finn ég bókstaflega lyktina af honum, ef kona þvær sér um hárið í bók, finn ég sjampóilminn. Ef persóna kveikir sér í sígarettu í sjónvarpsþætti, er ég með tóbakslyktina í vitunum, og nú allra síðast þegar ég tók mig til og hámhorfði á Terminator I, II og III, gaus upp þessi svaðalega púðurlykt í hvert sinn sem Schwarzenegger fíraði úr sínum byssuhólk, svo ég tali nú ekki um olíu- og brunalyktina sem lögðu undir sig stofuna þegar bílar og hús sprungu í öllum tryllingnum. Ég veit svei mér ekki hvernig ég á að fara að því að tortíma (eða ,,tortrýma“ eins og einn fyrrrverandi nemandi minn hélt að sögnin að tortíma héti) þessu ofurlyktarskyni hvað þá að ég hafi einhverja vitræna skýringu á hvernig sjón kveikir lykt. Ekki lekur lyktin út úr sjónvarpinu eða bókmenntunum. Eitt er víst, mótefnið dugar ekki á þessa tegund af draugalykt. Ég þarf einhvern Tortrýmanda úr fjarlægri framtíð til að gera út af við hana.