Undir eigin fána
Mikið rosalega er ég fegin að þurfa ekki lengur að sækja um listamannalaun. Ég gerði það í nokkur skipti bæði fyrir leikhúsverk og síðar bækur sem mig langaði til að skrifa og satt best að segja var það oftast höfnun og vonbrigði. Ég fékk þó listamannalaun held ég samtals fimm sinnum á þessum þrjátíu árum sem ég reyndi að vera virkur listamaður. Auðvitað dugðu þau ekki til nema nokkra mánuði í senn. Ég reyndi að lifa af milli stopulla verkefna með því að kenna, halda námskeið og fyrirlestra, nokkuð sem allflestir listamenn þurfa að gera til að lifa af.
Það tók mig reyndar mörg ár að nota orðið listamaður um sjálfa mig, þótt ég gerði lítið annað en að fást við listir og þá aðallega leikstjórn og skrif. Mér fannst líka alltaf erfitt að titla mig sem leikstjóra, hvað þá rithöfund, líklega vegna þess að innst inni fannst mér ég aldrei velkomin í þessa kreðsa, ég var boðflenna og utangarðsmaður í heimi listanna.
Þegar ég lít um öxl er ég þakklát fyrir að hafa þó fengið listamannalaun í nokkur skipti og hafa hrint í verk einhverju af því sem mig dreymdi um. En eftir á að hyggja varð aldrei nein almennileg samfella í þessari vinnu. Ég náði ekki þeirri fótfestu sem ég vildi, fann aldrei það hugarfrelsi sem er nauðsynlegt í allri listsköpun. Líf mitt var of flókið bæði persónulega og fjárhagslega til þess að ég gæti blómstrað fyllilega. Æska mín og unglingsár einkenndust af tengslaleysi og litlu nándartrausti. Mig skorti því alltaf einhvers konar grunnöryggi, fékk enga sérstaka hvatningu hvorki frá foreldrum né fjölskyldu til að afreka annað en að vinna fyrir mér með sóma og vera ekki öðrum byrði. Ég álpaðist inn í leikhúsið í gegnum ballettnám og þar kynntist ég leikhúslistamönnum sem höfðu mikil áhrif á mig. Ég vildi feta sömu slóð og þeir, taldi mér trú um að ég ætti heima í leikhúsinu. Kannski var það tilraun til að eignast nýja og betri fjölskyldu.
Auðvitað er ég þakklát fyrir öll tækifærin sem ég fékk sem leikstjóri og höfundur þótt ég hefði kosið á sínum tíma að þau yrðu fleiri og stærri. Því miður er það svo að höfnunin er hluti af listamannsstarfinu, það geðjast ekki allir að því sem listamaðurinn er að fást við og ef hann þekkir ekki rétta fólkið á réttum tíma er á brattann að sækja. Listamenn þurfa því stöðugt að berjast fyrir sínu og sanna sig til að öðlast viðurkenningu þeirra sem á hverjum tíma ákveða hvað sé list og ekki list. Ég var alvön allt frá æsku að þurfa að berjast fyrir mínu, það var ekkert sjálfsagt að stelpur ættu upp á pallborðið hvorki í listum né annars staðar í þjóðfélaginu. Og talandi um höfnun, ég man þá tíð þegar ég var að reyna fyrir mér sem leikstjóri og leikhússtjórar voru að skipuleggja næsta leikár á vormánuðum. Ég sat við símann og beið eftir að þeir byðu mér verkefni. Mér fannst ég fyrir löngu búin að sýna og sanna með heilmörgum uppsetningum í framhaldsskólum og áhugaleikhúsum hvað í mér bjó, að mér væri treystandi. Svo leið vorið og sumarið og ekkert gerðist. Ekkert símtal úr leikhúsunum, ekkert samband.
Jú, eitt vorið hringdi í mig leikhússtjóri og sagði að samningurinn væri tilbúinn, hvort ég væri ekki til í að koma og skrifa undir. Ég kom af fjöllum, kannaðist ekki við neinn samning en lét á engu bera, trítlaði bara niður í leikhús og sagðist vera komin til að skrifa undir. Leikhússtjóranum brá heldur í brún við að sjá mig, hann hafði hringt í skakkt númer, vitlausa Hlín! Það var nefnilega önnur Hlín sem var leikmyndahöfundur og okkur var oft ruglað saman. Höfnunartilfinningin helltist yfir mig, sjálfstraustið hrundi og sjálfseyðingarhvötin tók völdin með tilheyrandi þunglyndi. Djöfulsins fífl gat ég verið!
Og svona voru þessi fyrstu ár í listinni meira og minna, eilíf barátta við að öðlast viðurkenningu, að fá ,,réttmæt listamannalaun.“ Eilíft bank á dyr hjá þeim sem öllu réðu í menningu og listum en svörin alltaf þau sömu: ,,Ekki að þessu sinni, komdu aftur, leyfðu okkur að fylgjast með.“ Hvílíkt hark, hvílíkur masókismi! Sjálfspyntingin er reyndar annar stór hluti af því að vera listamaður, að velta sér upp úr því hvers vegna ekki ÉG? En það er þýðingarlaust að spyrja nema maður ætli á endanum að verða brjálaður. Eða komast að þeirri niðurstöðu að maður eigi ekkert erindi, sé lélegur pappír, úreltur eða hæfileikalaus. Ástæðurnar eru auðvitað aðrar og fleiri, lítið land, margir um hituna, klíku- og andverðleikasamfélag, frændhygli, þöggun og svo þetta huglæga; óvinsældir, illt umtal, hatur, andúð, öfund og einelti, já bara helvítis mótbyr alltaf hreint.
Hæfilegur skammtur af mótbyr er reyndar öllum nauðsynlegur til að þroskast og þá sér í lagi sá ytri. En innri mótbyr, sá sem maður kemur sér upp sjálfur, þessi eyðandi rödd sem hakkar allt í spað í hausnum á manni og kyndir undir vænisýkina, hún leiðir ekki til neins. Allt þetta get ég sagt og skrifað nú af því hef ég öðlast frelsi undan þessu oki. Ég er ekki lengur háð viðurkenningu annarra þegar kemur að launum fyrir mitt erfiði. Ég þekki hvorutveggja gleðina við að fá og sársaukann við að fá ekki og er þakklát fyrir allt sem ég hef þó fengið. Nú sæki ég bara um hjá sjálfri mér og kannski fæ ég eitthvað, kannski ekki neitt. Ég sigli undir eigin fána.