Að fara í gústaf
Það skelfur ekkert hjá mér þessa dagana enda ekki til ólíkari lönd en Ísland og Svíþjóð jarðfræðilega svo ég minnist ekki á annað sem aðgreinir þjóðirnar tvær. Og ekki skelf ég úr kulda því vorið er komið og er ansi snemma á ferðinni finnst Svíum. Ég er þó enn í mínu sænska híði og hef varla farið í ,,gústaf“ eins og eitt af bónus barnabörnum mínum kallar það, að fara í bústað. Honum finnst fátt skemmtilegra en að fara í bústað.
,,Mamma, hvenær getum við farið aftur í gústaf?“ spurði hann á dögunum.
,,Það heitir ekki gústaf, það heitir bú-stað, að fara í bú-stað,“ sagði mamma hans.
Og af því hann er að læra að lesa og um leið íslensku sá hann sér til mikillar gleði að hún hafði rétt fyrir sér þegar hann las á götuskiltið Bú-staðavegur, einmitt á leið í bú-stað.
Sjálfri hefur mér alltaf fundist gaman að fara í gústaf og á tímabili fór ég reglulega í Ölfusborgir til að skrifa, í gönguferðir og sund í Hveragerði. Og einu sinni sem oftar varð jarðskjálfti og litli orlofsgústafurinn breyttist í eldspýtustokk á svipstundu og ég hélt að hann myndi jafnast við jörðu. Þá hringdi ég í Ragnar skjálfta vin minn og spurði um styrkinn. (Aumingja Ragnar, hvað ætli hann hafi fengið mörg þannig símtöl um ævina?)
,,Elskan mín, þetta var ekkert, mesta lagi 3 á Richter,“ sagði hann.
Ég hringdi líka í Ragnar þegar næsti skjálfti reið yfir eldspýtustokkinn, (vildi vera fyrst með fréttirnar), en sá skjálfti mældist ekki nema neðst í hryggjarsúlunni á mér og var ekki nema 1 á Hrygg. Ég hef alltaf verið næm á skjálfta, alls konar skjálfta, ekki síst sálræna.
Allir Íslendingar eiga sína skjálftasögu og segja frá þeim líkt og draumförum sem geta verið með allra leiðinlegastu söguefnum. Ég ætla samt að segja frá stóra skjálftanum 1968, sem ég missti reyndar af, var í landsprófi í Austurbæjarskóla og skrapp á klóið og fann ekki fyrir honum. Annar stór skjálfti var 1973, þá var ég að horfa á leikritið Ótrygg er ögurstundin eftir Edward Albee í Iðnó, afar viðeigandi titill. Það fór hvinur um salinn og gamla iðnaðarmannahúsið ætlaði af grunninum. Helga Bachmann stórleikkona hikstaði rétt sem snöggvast á texta Albees, brosti dulúðug út í salinn í slow motion og hélt svo áfram þegar gamla leikhúsið var aftur komið í sínar skorður.
En ég ætlaði alls ekki að skrifa um jarðskjálfta og ekki heldur heimsfaraldur þótt hann sé farinn að hafa meiri áhrif á mig en ég hélt. Ég hef varla farið út úr húsi í þrjá mánuði nema í mína daglegu göngu um skóginn. Híðið hefur verið mitt athvarf þessa mánuði. Og þar líður mér best og hefur aldrei liðið betur. Í litlu herbergi, einhvers konar blöndu af unglingaherbergi og ellikúpu, nýt ég þess að hreiðra um mig. Þar hef ég allt til alls, bækurnar sem ég er að lesa, útvarpið á náttborðinu, símann með storytel innan seilingar, tölvuna á skrifborðinu, dádýrin út um gluggann, jógamottu á gólfinu, rúm til að fleygja mér í og ekki má gleyma: myndir af ættingjunum á veggjunum. Í híðinu er eitt besta næði sem ég hef upplifað frá því ég var í móðurkviði, nema hvað ég man ekkert eftir því.
Það er mikill léttir að þurfa ekki að hitta neinn (nema náttlega kærastann), að þurfa ekki að láta klippa sig, setja á sig andlit, endurnýja fataflotann, vera til fyrir aðra. Loksins dvelja peningarnir bara í ró og næði í bankanum, þar sem þeir eiga heima svo eigendurnir geti greitt sér út nægilegan arð. Ekki einu sinni hægt að fara í bíó eða leikhús, hvað þá út að borða eða í ferðalag.
Jú, hvernig læt ég. Ég fór í gústaf í Söderköping í vikunni sem leið og hitti bráðskemmtilega vini mína sem eru reyndar ekki búnir að fá sprautuna. Og ekki ég heldur, státa enn af mótefninu frá því í fyrra. Og auðvitað fór ég í bókabúð í Söderköping, þá elstu í Svíþjóð og krækti mér í bækur, eina eftir Peter Handke um móður hans sem framdi sjálfsmorð, aðra eftir Vigdísi Hjorth um föður sem misnotaði hana kynferðislega og til að létta aðeins stemninguna; ljóðabók eftir Gunnar Ekelöf, þar sem tvær fyrstu línurnar hefjast á eftirfarandi orðum:
,,Ég trúi ekki á líf að þessu loknu, ég trúi á þetta líf.“
Ég tek undir með skáldinu, ég trúi á þetta líf og aðeins þetta líf, þótt ég sé fermd og hafi lofað að gera Jeús Krist að leiðtoga lífs míns. Það er ekkert líf eftir dauðann. Ekkert frekar en fyrir lífið. Nema hjá öðrum.
Og þess vegna fer ég stundum í gústaf með vinum mínum og nýt lífsins í botn, þrátt fyrir farsóttir og skjálfta, þrátt fyrir boðuð eldgos og stökkbreytta veiru. Með vinunum borða ég ljúffengan mat, drekk dýrðarinnar vín, hlusta á sögur, segi sögur, er til sem aldrei áður. Það skelfur ekkert lengur inni í mér eins og þegar ég var yngri. Þá þurfti ekki einu sinni jarðskjálfta til að allt léki á reiðskjálfi í sálinni. Og stundum var styrkurinn svo mikill að hann rústaði öllu innan í mér.
Já, þær eru margar skjálftasögurnar.
Eins og draumarnir.