Sturlunga hin nýja
Þegar pabbi minn var komin á efri ár og aðeins farið að hægjast um hjá honum, átti hann það til að hringja í mig og halda einræður um það sem var efst á Baugi í hans huga. Það var einkum tvennt sem hann talaði um. Annars vegar var það Jóhannes í Bónus og öll hans snilld í verslun og viðskiptum, hins vegar Sturlunga sem hann las sundur og saman öllum stundum áður en elliglöpin tóku öll völd. Ég var hvorki hrifin af Jóhannesi í Bónus, né Sturlungu, hafði aldrei almennilega sett mig inn í hvorki lágt vöruverðið í Bónus né öll átökin milli ættarhöfðingjanna í Sturlungu.
Ég nefni þetta hér af því ég er nýbúin að lesa nýja ,,Sturlungu“ sem fjallar m.a. um Jóhannes í Bónus en þó aðallega um son hans Jón Ásgeir. Sú bók er skrifuð af einum helsta sérfræðingi okkar í Sturlungu, Einari Kárasyni en hann hefur skrifað fjórar skáldsögur þar sem hann sækir efniviðinn í þessa frægu miðaldasögu. Þegar ég átti einn kafla eftir í Málsvörn Einars, varð mér hreinlega óglatt og beið með síðasta kaflann þar til ógleðin leið hjá.
Áður en ég held lengra vil ég taka fram að ég hef aldrei haft neinar sérstakar skoðanir á Jóni Ásgeiri og þeim Bónusfeðgum og viðskiptaveldi þeirra. Á sínum tíma gafst ég líka upp við að fylgjast með einkavæðingaráformum Davíðs Oddssonar, losun hafta og eftirlits í viðskiptalífinu, sölu bankanna og útrásarvíkingum. Af og til hrökk ég þó upp við skandala eins og fjölmiðlafrumvarp sama Davíðs 2004 sem allir vita að beindist aðallega gegn Bónusfeðgum og þeirra fjölmiðlafyrirtækjum og svo brá mér auðvitað ekkert smá við sjálft bankahrunið. Svokallaða. Fyrir mér voru öll þessi krosseignatengsl félaga og tengdra aðila allt of flókin uppskrift að krosssaumi, ég hef tilhneigingu til að einfalda líf mitt ef ég get. Það sem olli velgjunni var því hvorki útþanið viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs né margumrædd skapheimska og einræðistilburðir Davíðs Oddssonar og ekki heldur ofsóknir og hatur Davíðs á Jóni Ásgeiri sem eflaust margir vilja velta sér upp úr og gera að aðalatriði. Bókin er miklu meira en það og ekki neinn hvítþvottur á manni sem margir telja skíthæl. (Samt pínu þreytandi þegar hamrað er á og haft eftir vinum hans að hann sé heiðarlegur maður sem alltaf standi við orð sín og hægt sé að treysta.)
Þótt Einar reki sögu Jóns Ásgeirs frá unga aldri þar sem helstu hæfileikar hans í viðskiptum komu strax fram, hæfileikar sem að lokum urðu honum að falli, er hin stóra mynd alltaf til staðar, þ.e. vanþróað klíkusamfélagið á Íslandi og nýfrjálshyggjan sem skapaði og mótaði allt umhverfi viðskiptalífsins um og eftir síðustu aldamót með tilheyrandi átökum á markaði. Þeir Davíð og Jón Ásgeir eru í bók Einars tveir helstu fulltrúar átaka sem líkja má við stigveldis- eða stéttaátök innan sama hóps eigna- og valdamanna. Jón Ásgeir var enginn höfðingi, heldur ,,self-made man,“ ættlaus ,,lágstéttar“ strákur sem vann sig upp og ógnaði ættar- og kolkrabbaveldi Sjálfstæðisflokksins og kaupfélagsveldi Framsóknarflokksins. Hann varð einfaldlega of ríkur of hratt og naut of mikillar velgengni einkum erlendis, það varð að stöðva hann með öllum ráðum. Baugsveldið tók of mikið frá hinum hákörlunum. Allir voru nefnilega ekki jafn jafnir þegar nýfrjálshyggjan reið Sjálfstæðisflokknum, sumir voru jafnari en aðrir.
Og til þess að stöðva piltinn var lögreglu og dómsvaldi beitt í endalausum málarekstri sem ekkert kom út úr annað en stanslaus viðrekstur, semsagt prump með ótrúlegum kostnaði fyrir þjóðfélagið. Sjálfstæðisflokkurinn sá um að útvega sínu lögfræðingaveldi og dómurum næga vinnu og tekjur við að eltast við strákfíflið hann Jón bæði fyrir og eftir hrun þegar skiptastjórar bankanna tóku við að maka krókinn á óförum hans.
Þetta er mikil frekjukarlasaga hjá Einari og endurspeglar hrikalegt karlaveldi í efnahagslífi þjóðarinnar þar sem konur komast varla á blað. Enn og aftur sannast að konur hafa engin völd þegar kemur að fjármálum og peningastjórnun í þessum heimi. Þær geta í einstaka tilfellum beitt ,,innra“ valdi til að hafa áhrif á bændur sína eins og í fornöld en aldrei svo mikil að þau haggi ,,ytra“ valdi samfélagsins, því sem birtist í kauphöllunum og sambræðingi peningamanna og pólitíkusa.
Það er að vísu minnst á mæður, eiginkonur og ástkonur, einkum eina sem þurfti að hefna harma sinna ærlega á þeim Bónusfeðgum og það gerði hún með því að fara í lið með helstu andstæðingum þeirra, þeim ,,innvígðu og innmúruðu“ eins og gamall ritstjóri Morgunblaðsins kallaði valdaklíku Sjálfstæðisflokksins. Já, þetta er sannarlega ,,viðbjóðslegt þjóðfélag“ eins og sami ritstjóri komst svo vel að orði í kjölfar bankahrunsins, ,,engin prinsipp, engar hugsjónir, bara tækifærismennska og valdabarátta.“ Spurning hvort það átti við hans eigin klíku eða hinar sem flokkur hans barðist gegn.
Ég held ég verði að taka undir orð Gests Jónssonar lögfræðings og verjanda Jóns Ásgeirs í öllum hans ólgusjó í gegnum tíðina. Við hefðum ekki átt að slíta okkur alveg úr sambandi við Dani þarna 1944, við hefðum haft svo gott af því að siðvæðast aðeins lengur áður en við klipptum á naflastrenginn. Að minnsta kosti láta þá hafa lögsögu í dómsmálum eins og þeim sem sem beindust gegn Baugsmönnum þar sem ofsóknir, hatur og persónulegur fjandskapur réð ferðinni.
Jæja, nú er ég víst orðin að Baugspenna og farin að halda með Baugsklíkunni en þetta er allavega það sem er efst á Baugi hjá mér núna. Pabbi hringir ekki lengur til að dásama Jóhannes í Bónus, ég er farin að fylgjast með vöruverðinu þar fyrir þó nokkru en Sturlungu á ég eftir að lesa ofan í kjölinn. Veit ekki hvort ég læt verða að því á næstunni. Læt þessa nýju ,,Sturlungu“ nægja mér í bili.