Tjáning er þjáning

Við lifum á tímum þar sem allir mega segja allt jafnvel þótt þeir hafi ekkert að segja. Það var öðruvísi hér áður fyrr og örugglega miklu betra þegar kynin voru bara tvö og kynþættirnir höfðu þann lit sem þeir hafa, svo ég tali nú ekki um þegar vangefnir voru vangefnir, geðveikir geðveikir og öfugir öfugir.

Í dag er allt öfugsnúið og við þurfum að glíma við allt aðrar sviðsmyndir í tungumálinu, hlutirnir heita ekki lengur það sem þeir hétu. Þótt maður megi tjá sig um allan fjandann, má maður samt ekki tjá sig um allt og alls ekki nota vitlaus orð yfir það sem maður er að tjá sig um.

Fyrir mér hefur tjáning alltaf verið bölvuð þjáning. Ég man þegar ég var barn og hafði eitthvað að segja, vildi tjá mig um eitthvað óréttlæti, þá var mér oftast sagt að þegja og skammast mín. Aðallega af pabba, öflugum fulltrúa feðraveldisins sem þaggaði miskunnarlaust niður í uppivöðslusömum stelpukjánum eins og mér.

Það varð til þess að langt fram á unglingsár átti ég erfitt með að tjá mig rétt eða eins og feðraveldið vildi. Ég hikstaði og stamaði og kom ekki orðunum út úr mér. En það var ekki endilega feðraveldinu að kenna að öllu leyti komst ég að um fertugt þegar Gulli stjarna skoðaði stjörnukortið mitt og sagði að rekja mætti tjáningarþjáningu mína til stöðu himintunglanna. Þetta var allt Plútó að kenna eða var það Úranus sem átti sökina? Ég man það ekki.

Síðar meir hef ég komist að því að það er rangt að segja að ég sé tjáheft. Ég er einstaklingur með tjáröskun sem fjöldi fólks stríðir við alla daga ársins aðallega á netinu eða með því einfaldlega að þegja og segja ekki neitt. Samt lifum við og hrærumst í tungumálinu sem er á sífelldu iði eins og jarðskorpan, alltaf að breytast, óróapúlsinn þar engu minni en undir Fagradalsfjalli.

Um daginn varð allt vitlaust hér i Svíþjóð þegar nafnlaus hópur nemenda við Konstfack listaháskólann gerði athugasemdir við nafn á sýningarsal skólans sem fram til þessa hefur heitið Hvíta hafið. Hópurinn sem stóð að baki gagnrýninni kallaði sig Brown Island. Uppistandið í kringum nafnið átti að vekja athygli á því að öllum væri ekki gert jafn hátt undir höfði þegar kæmi að listnámi og þar var átt við minnihlutahópa eins og innflytjendur með annan húðlit en hvítan og aðra menningu en vestræna.

Einn af prófessorum skólans í hönnunardeild vogaði sér að halda því fram að upphafleg nafnagift á salnum tengdist alls ekki hvíta kynstofninum og kúgun hans um aldir á öðrum kynstofnum. Orðið ,,hvítur“ táknaði í þessu samhengi auða, hvíta veggi, sýningarpláss handa öllum. Á norðurslóðum er hvíti liturinn auðvitað áberandi þar sem snjór og ís liggur yfir landi og sjó stóran hluta ársins.

En Brúnlendingar vildu samt að nafninu yrði breytt og það verður gert því enginn vill láta herma það upp á sig að vera rasisti. Þar sem lýðræðið er virkt er tekið tillit til allra radda, hversu litlar sem þær eru. En rödd prófessorsins sem reyndi að malda í móinn og færa rök fyrir því að nafnabreyting á salnum þjónaði ekki ætluðum tilgangi, henni var slaufað í samræmi við slaufunarmenningu samtímans. Prófessorinn var auðvitað hvít, miðaldra kona, komin yfir miðjan aldur.  

Allt fjallar þetta um flekahreyfingar menningarinnar, gamalt samfélag mætir nýju, gamlar hefðir og hugmyndir verða úreltar, tungumálið höktir hægt á eftir og nær ekki utan um allar breytingarnar sem eiga sér stað. Við flækjumst í mótsögnum og þversögnum tungunnar. Ég finn sjálf að ég er í stökustu vandræðum með tungumálið þótt ég reyni að vanda mig.

Þegar ég vann í sjónvarpi sem gagnrýnandi varð mér eitt sinn á að segja ,,þroskaheftur einstaklingur“ þegar ég var að tala um einhverja leiksýningu. Daginn eftir voru komin skilaboð utan úr bæ: ,,Komdu sæl Hlín, ég tók eftir því að þú notaðir orðið þroskaheftur í sjónvarpinu í gær, við notum það orð ekki lengur, það heitir fólk með þroskaskerðingu.“  Ég lofaði að bæta mig en ég finn að ég er í vandræðum með fleira.

Hvernig á ég að tala við manneskju sem var eitt sinn karl en er nú kona en er samt með skeggrót og karlmannsrödd. Á ég að tala við manneskjuna í karlkyni eða kvenkyni eða reyna að nota hvorugkyn? Ég fæ ekki af mér að segja ,,Sælt vertu“ eða ,,Ertu svangt?“ af því einfaldlega að það samræmist ekki minni málkennd og hlýtur að hljóma tilgerðarlega í eyrum kynfarans. Já, ég sagði kynfari, orð sem beygist eins og geimfari og ég stakk upp á að notað yrði um transfólk á sérstakri ráðstefnu um nýyrði sem það sjálft hélt og bauð mér að taka þátt í.  

 Við lifum semsagt á tímum þar sem allir mega segja allt sem þeir vilja, tjáningarfrelsið er að mestu óheft en samt þurfum við að gæta okkar og vanda í hverju skrefi. En vandinn við að vanda sig er þessi rétttrúnaður sem hefur tilhneigingu til að kæfa alla skapandi tjáningu. Og það fer lítið fyrir húmornum, honum hefur að mestu verið slaufað enda er húmor oft svo andstyggilegur og ekkert fyndinn.

Jæja, ætli sé ekki best að fara að slaufa þessu, áður en mér verður slaufað, afvinuð og útskúfað. Pabbi hefði sagt mér að þegja og skammast mín. Vera ekki að tjá mig um hluti sem ég hef ekki hundsvit á. Enda er ég hvít, eldri millistéttarkona, ógift og barnlaus, með kynáttunarvanda og hef glímt við tjáröskun frá barnsaldri.

 

 

 

  

Previous
Previous

Frjálslega vaxnar konur

Next
Next

Að fara í gústaf