Heimsóknin sem breytti mér
Ég var 23ja ára sumarið 1977 þegar ég fór akandi frá Svíþjóð til Tékkóslóvakíu með vinum mínum. Við vorum fjögur í bílnum, þrír ungir námsmenn í Uppsölum og einn áhugasamur menntaskólanemi frá Reykjavík. Þetta var fyrsta alvöru útlandaferðalagið mitt, fyrstu kynnin af menningu og tungumálum sem ekki voru norræn. Sumir voru á leið á tékkneskunámskeið, aðrir bara að forframa sig, skoða heiminn og skemmta sér. Skottið var fullt af farangri fyrir mánaðarlanga útilegu og við skiptum með okkur virðingarstöðunni Inspector skottis eins og embættið hét. Það fól í sér að koma öllu okkar hafurtaski haganlega fyrir í skottinu á hverjum morgni áður en lagt var af stað á næsta áfangastað.
Við vorum ung og galsafengin og það ríkti mikið fjör í bílnum Renault R16 sem þaut eftir hraðbrautunum. Brandarar flugu milli fram- og baksæta og fararstjórinn sem var alveg að verða sérfræðingur í slavneskum málum, hélt örstutt skyndinámskeið í pólsku og tékknesku svo við gætum pantað okkur þótt ekki væri annað en einn pívó (bjór) og svo auðvitað kléb (brauð), sýr (ost) og mlék (mjólk). Á ferðaáætlun okkar var m.a. heimsókn til Auschwitz þar sem við ætluðum að skoða safnið um helförina og tjalda síðan á tjaldstæðinu um nóttina.
Við tókum ferjuna frá Trelleborg yfir til Austur-Þýskalanda og ókum gegnum fátæklegar sveitir, niðurnídd þorp og almennan óblóma. Á landamærunum við Pólland blöstu við okkur risaskilti með texta eins og DDR und Sowjetunion auf evig verbunden, vináttan við Sovétríkin var í öndvegi hjá Honecker og co, járntjaldið sannarlega ekki fallið en mannréttindahreyfingin Charta 77 í algleymingi í Tékkó þar sem Gustav Husak var við völd hjá kommunum.
Svo brunuðum við niður eftir Póllandi í gegnum aðrar sveitir og þorp þar sem iðnaðarmengun úr gömlum verksmiðjum lá yfir ökrunum svo bændum lá við köfnun. Við heimsóttum borgir eins og Wroclaw og Opole, þar sem Prins Póló kexið er framleitt og keyptum okkur auðvitað prins í rauðum búningi en ekkert kók var að hafa hjá kommúnistunum.
Daginn eftir komum við svo til Auschwitz, keyptum aðgangsmiða inn í safnið og ég fékk mér litla bók með lýsingum á þeim voðaverkum sem fram fóru í þessum fangabúðum illsku og afmennskunar. Eins og sannur ferðamaður var ég auðvitað með myndavél um hálsinn, ætlaði að sýna vinum slidesmyndir úr ferðinnni við heimkomu eins og var í tísku. Ég byrjaði á því að taka mynd af hliðinu inn í búðirnar með þekktum slagorðum sem standa greypt í járn fyrir ofan hliðið: Arbeit macht frei, Vinnan gerir þig frjálsan sem voru auðvitað fullkomin öfugmæli í öllu samhenginu, hreinn útúrsnúningur á því sem þarna fór fram. Enginn komst undan vinnuþrælkun nema hann færi beint í gasklefana við komuna til búðanna. Eina frelsið var dauðinn sjálfur. Og svo hófst ganga mín inn í aflangar byggingar búðanna, rauðbrún múrsteinshúsin þar sem safnið var til húsa með gasklefunum í kjöllurunum.
Það fyrsta sem sló mig þegar inn var komið voru andlitsmyndir af krúnurökuðum fórnarlömbum helfararinnar. Eftir endilöngum göngum héngu þær innrammaðar á veggjum ásamt litlu skilti með nafni og starfsheiti viðkomandi. Í hverju skrefi störðu þau á mig, augun sem vissu hvert stefndi, horfin andlit og svipir. Ég reyndi að gera mér í hugarlund hvaða hugsanir og tilfinningar höfðu bærst í huga þeirra og sál síðustu augnablikin áður en myrkrið slökkti ljós og líf. Margar myndanna voru af einstaklingum sem höfðu skarað fram úr í þjóðfélaginu, fólki sem tilheyrði óæskilegum þjóðfélagshópum og var útrýmt samkvæmt þaulúthugsaðri framkvæmdaáætlun nasista, skipulagsmaníu andskotans. Ég man starfsheitin: eðlisfræðingur, hljómsveitarstjóri, leikari, verkfræðingur, fiðluleikari, læknir, málfræðingur, listmálari ... guð minn góður, allar þessar gáfur og hæfileikar sem engir böðlar þola.
Og svo voru það sýningarherbergin á göngunum, þar sem mátti sjá sýnishorn af fatnaði, skótaui, gleraugum, stöfum, hækjum og öðrum persónulegum eigum sem hirtar voru af fórnarlömbunum strax við komuna í búðirnar. Fyrir framan gler var hægt að skoða lampaskerma, dúka og fleiri afurðir framleiddar úr mannshúð og mannshári og sápu úr mannsfitu. Mér varð bumbult, það þyrmdi yfir mig, gat varla hugsað mér að kíkja inn í gasklefana en gerði það samt. Hugur minn var í uppnámi, hvernig gat þetta gerst? Svarið fann ég síðar að hluta til í bók Hönnu Ahrendt Lágkúra illskunnar sem hún skrifaði um réttarhöldin í Jerúsalem 1961 yfir Eichmann, einum helsta skipuleggjanda helfararinnar.
Það leið að kvöldi þennan dag í Auschwitz, síðustu sólargeislar dagsins brutust gegnum gráleitt mistrið yfir búðunum. Þreytan sagði til sín eftir þessa martraðarkenndu heimsókn.Við vissum varla lengur hvert förinni var heitið. Eitt var þó víst, við treystum okkur ekki til að tjalda á jörð þar sem hundruðir þúsunda höfðu miskunnarlaust verið teknir af lífi, saklausir borgarar Evrópu, konur, karlar og börn. Við fundum okkur annan næturstað.
Heimsóknin í Auschwitz litaði ferðalag okkar dagana á eftir, við ræddum helförina fram og tilbaka í bílnum, ég las upp úr bókinni sem ég keypti við innganginn, við reyndum að skilja það sem varla er hægt að skilja. Glaðvær heimur okkar breyttist á einum degi, við vorum önnur og breytt. Engu að síður varð einhver að gegna hlutverki Inspector skottis svo við sæjum út um bakrúðuna á bílnum. Heimshryggðin mátti ekki ná tökum á okkur. Maður þarf að hafa skipulag á farangri lífsins til að geta séð bæði út um bakrúðuna og framrúðuna. Sá sem hefur komið til Auschwitz verður aldrei samur, hann hefur séð bakhlið sögunnar, myrkraverkin sem aldrei mega gleymast á meðan mannkyn lifir.