Að frelsa heiminn
,,Slín, þú vilt svo mikið,“ sagði vel meinandi sænskur sálfræðingur við mig fyrir tæplega fjörtíu árum. Ég vann á Ulleråker sjúkrahúsinu í Uppsölum, á deild fyrir margdæmda eiturlyfjafíkla sem voru nú dæmdir í meðferð. Þetta var tilraunaverkefni, fíklarnir skrifuðu undir samning um meðferð frekar en að lenda enn og aftur bakvið lás og slá fyrir síendurtekin eiturlyfjaafbrot.
Yfirlæknirinn sem fór fyrir verkefninu ásamt sálfræðingi og félagsráðgjafa, var frjálslyndur og opinn fyrir nýjum hugmyndum í meðferðarprógramminu. Hann hvatti okkur óbreytt starfsfólkið til að koma með uppástungur um það sem betur gæti farið og auðgað anda fíklanna sem langflestir voru forfallnir amfetamín- og heróínsjúklingar.
Meirihluti þeirra voru karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri en uppistaðan í starfsmannahópnum voru ungar, frískar og aðlaðandi konur. Og ég var ein af þeim, alveg ógurlega frísk, veit ekki hvort ég hafi verið svo aðlaðandi en hugmyndarík og frelsuð leikhúsmanneskja, nýbúin að ljúka háskólanámi í leikhúsfræðum. Ég trúði því bókstaflega að það væri hægt að frelsa heiminn með leikhúsi. Og að sjálfsögðu vildi ég koma boðskapnum á framfæri við fíklana. Þeir hlytu að sjá ljósið við það eitt að komast í leikhús.
Á einum starfsmannafundi stakk ég upp á því að fara með þá í leikhús og um leið hækka menningarstigið í meðferðinni. Leiksýningin sem ég vildi að fíklarnir sæju var Drekinn eftir rússneska höfundinn Évgení Schwartz í róttæka Fria Pro leikhúsinu í miðborg Stokkhólms. Sýningin hafði fengið glimrandi dóma en leikritið var skrifað 1944 gegn öllu alræði, dulbúin ádeila á Stalínstímann í Sovétríkjunum. Ég var búin að sjá sýninguna og gat tekið undir allt lofið um hana. Þar að auki þekkti ég til á Fria Pro og alla listamennina, hafði skrifað lokaritgerð mína í leikhúsfræðum um uppsetningu þeirra á Púntila og Matta eftir Brecht.
Yfirlæknirinn tók hugmyndinni fagnandi en sálfræðingurinn og félagsráðgjafinn voru efins. Það var of mikið vesen að fara með þessa veiku menn í stórborgina, of mikil áhætta og freisting og þar að auki álag fyrir starfsfólkið. En yfirlæknirinn var ekki alveg sama sinnis. Hann var ekki bara opinn og frjálslyndur heldur lýðræðislegur líka. Þess vegna lagði hann þessa tillögu fyrir fíklana og spurði hvort þeir hefðu áhuga á að fara í leikhús? Og að sjálfsögðu sögðu þeir allir já, alltaf gaman að fara í leikhús, alltaf gaman að heimsækja stórborgina. Ferðin var skipulögð, miðar pantaðir og lítil rúta til að ferja mannskapinn.
Sjálf var ég ekki á vakt helgina þegar kom að þessum viðburði svo ég fór ekki með hópnum. Gat þó varla beðið eftir að helgin liði til að heyra hvernig skjólstæðingum mínum og starfsfólkinu hefði líkað þessi frábæra leiksýning. Á mánudegi fór ég full tilhlökkunar til vinnu og fékk strax fréttir af menningarferðinni. Í fréttum var það helst að leikhúsferðin hafði snúist upp í algera katastrófu strax í rútunni á leið til Stokkhólms þegar sumir rifu upp fyrsta bjórinn. Það virtist enginn vandi fyrir þessa samningsbundnu sjúklinga að útvega sér hvorki alkóhól né sterkara stöff ef því var að skipta. Þeir þurftu að skila þvagprófi daglega til að sanna að þeir væru hreinir en tókst með undraverðum hætti að útvega sér hreint hland þegar þeir þurftu að fela neyslu, jafnvel þótt við starfsstúlkurnar stæðum í dyragættinni og horfðum á þá míga sem var hluti af starfsskyldum okkar.
En áfram með katastrófuna. Þegar til Stokkhólms var komið, fór allt úr böndunum, sumir flýðu strax inn á næsta pöbb og fengu sér ábót á bjórinn en aðrir ákváðu að halda sér á mottunni. Einhvern veginn tókst starfsfólkinu að smala öllum í leikhúsið en það leið ekki á löngu þar til þessir geðugu leikhúsgestir stóðu upp með framíköll og dónaskap: ,,Djöfull er þetta leiðinlegt leikrit, hvað, getiði ekki reynt að skemmta manni, kalliði þetta leiklist, hvað haldiði að þið séuð,“ o.s.frv. Þegar þessar truflanir höfðu reynt á þolrif leikhópsins í tíu til fmmtán mínútur, stöðvaði einn leikarinn sýninguna og bað þessa gesti vinsamlegast að yfirgefa leikhúsið ef þeir gætu ekki notið sýningarinnar eins og aðrir áhorfendur.
Og þá fyrst byrjaði ballið fyrir alvöru með tilheyrandi hótunum, blótsyrðum og klámkjafti. Áhorfendur urðu dauðskelkaðir og smalastúlkurnar hrökkluðust út úr leikhúsinu ásamt sauðum sínum sem struku flestir um leið og þeir komust út á götur stórborgarinnar. Af þeim sjö sauðum sem fóru á þessa rómuðu leiksýningu skiluðu sér aðeins tveir tilbaka á deildina.
Eftir þessar hörmulegu fréttir kollega minna var ég niðurbrotin manneskja, ég átti jú frumkvæðið að þessum ófögnuði. Sálfræðingurinn á deildinni, skilningsrík kona á miðjum aldri, ávallt vel klædd og enn betur greidd, horfði á mig með yfirvegaðri vorkunnsemi í augunum og sagði:
,,Slín, þú vilt svo mikið“ og brosti síðan hughreystandi.
Ég skildi ekki alveg í fyrstu hvað hún átti við, ekkert frekar en þegar ég var rukkuð um sjálfsvirðingu mína mörgum árum seinna eftir langt meðvirknissamband. En hvað vildi ég eiginlega með þessu öllu? Trúði ég virkilega að leikhúsið gæti frelsað þessa menn eða heiminn yfirleitt? En, æ, ég var bara 26 ára, reynslulaus og barnaleg en ógurlega dugleg og vildi svo mikið. Skömmu eftir þetta feigðarflan sagði ég starfi mínu lausu á deildinni og flutti ég heim og gekk í íslenska leikhússöfnuðinn. Löngu seinna skildi ég að hinn góði vilji til að frelsa heiminn getur steypt manni í glötun og valdið enn meiri skaða en þann sem átti að bæta eða eins og skáldið sagði í frægu ljóði: Og það er sama, þótt þú sért góður maður og gegn/og gangir í hlé eins og drengur, saklaus og feiminn/Þú ræðst samt alltaf á það, sem þér er um megn/og þessvegna tekst þér aldrei að frelsa heiminn.
Þessi sálfræðingur var ekki svo vitlaus þegar upp var staðið, þótt hún gæti ekki borið fram nafnið mitt rétt. Ég vildi svo mikið.