Hræðileg hamingja
Nú kveð ég skáldsöguna mína Hilduleik og sný mér að næsta verkefni hér í klaustrinu þar sem ég dvel um þessar mundir. Það tók mig þrjú ár að skrifa bókina en heil ellefu ár liðu milli hennar og síðustu skáldsögu minnar Blómin frá Maó. Einhverjum kann að finnast það langur tími milli bóka. Hinsvegar eru sumir ellefu ár að skrifa bók eins og hún Lydia Sandgren sem fékk Augustverðlaunin 2020, ein helstu bókmenntaverðlaun Svía fyrir bókina Samlade verk. Og vel að merkja, það var hennar frumraun í skáldsagnaskrifum og engin smá múrsteinn eins og Svíar segja um þykkar bækur. Bókin telur 690 blaðsíður. Ég er komin á blaðstíðu 300.
Ég nefni þetta hér af því ég las nýlega viðtal við Lydiu Sandgren þar sem hún lýsir vinnuaðferðum sínum. Hún vaknar kl. 5.30 á hverjum morgni og skrifar í þrjá tíma áður en hún fer til vinnu en hún er sálfræðingur að mennt og starfar í Gautaborg. Í sama viðtali segist hún ekki horfa á sjónvarp, ekki fylgjast með samfélagsmiðlum og varla nota síma. Hún segist líka vanrækja vini sína og ekki stunda mikið félagslíf, allt þetta til að geta skrifað. Semsagt nunna myndi einhver segja.
Að vera nunna þarf alls ekki að vera svo slæmt. Það þýðir einfaldlega að loka sig af og dvelja í andlega klaustri til að geta einbeitt sér að þeim guði sem kona hefur valið sér. Þetta gera allir rithöfundar meira eða minna, ef þeir loka sig ekki af heima hjá sér, loka þeir sig af í útlöndum á rithöfundasetrum eða einhverju öðru athvarfi fyrir listamenn. Það tekur á að skrifa og oftast er það helvítis pína.
Já, það er margt sem listamenn leggja á sig til að koma verkum sínum á framfæri, fylgja þeim eftir og kveðja þau síðan. Fyrir unga og treggáfaða skáldsagnahöfunda eins og mig var auðvitað svolítið leiðinlegt að geta ekki haldið útgáfuhóf þegar Hilduleikur kom út, lesið upp úr bókinni eða kynnt hana í eigin persónu nema með stöðugum og eflaust þreytandi áminningum á Facebook.
Mér var reyndar boðið með fleiri höfundum austur á Hornafjörð til að lesa upp en veiran kom í veg fyrir það. Sem minnir mig á aðra kveðjustund þegar ég um hávetur setti upp Máfinn eftir Tsjékov með heimamönnum á Hornafirði. Þá gaf ég leikhópnum æfingafrí í nokkra daga til að geta flogið til Reykjavíkur og kvatt leiksýninguna Hræðileg hamingja sem ég hafði sett upp í Hafnarhúsinu. Verkið skrifaði Lars Norén, einn mesti risi í sænsku leikhús- og bómenntalífi Svía undanfarin 40 ár en hann lést nýlega af völdum veirunnar.
Þetta var semsagt lokasýning á verkinu sem ég hafði líka þýtt. Ég gat ekki hugsað mér að missa af henni og pantaði mér far með Fokkernum suður. Þegar ég mætti á flugvöllinn á Hornafirði stóð Fokkerinn upp við flugstöðvarbygginguna alveg tilbúinn fyrir leikstjórann.
En svo illilega vildi til að búið var að loka flugvélinni og ekki nokkur séns á að opna og hleypa mér með. Þannig voru bara reglurnar og ég var sein fyrir eða öllu heldur bílstjórinn minn sem hafði misreiknað sig um eina mínútu eða tvær. Þegar flugstjórinn ræsti hreyflana brast mín í grát og gnístran tanna, átti ég virkilega ekki að fá að kveðja leiksýninguna mína?
Flugvallarstarfsmenn brugðust hratt við þessu ástandi, kölluðu í flugradíóið og spurðu hvort einhver önnur flugumferð væri á svæðinu, sjúkraflugvél til dæmis? Ég hagaði mér auðvitað eins og geðsjúklingur sem þurfti á bráðaflutningi á geðdeild að halda.
En engin flugvél var á svæðinu og þá tók leikstjórinn ákvörðun og fékk sér bílaleigubíl. Það var sunnudagur í byrjun febrúar, ægifrost, hálka og snjóalög. Klukkan var rúmlega tvö og ég ætlaði að spæna til Reykjavíkur þessa 600 kílómetra til að ná lokasýningunni sem átti að byrja hálfníu um kvöldið.
Í stuttu máli breyttist sú ferð í hræðilega óhamingju. Hálkan var svo mikil að ég gat ekki ekið á meira en 40 kílómetra hraða. Klukkan átta var ég komin á Skeiðarársand og þar virtist vegurinn aðeins greiðfærari, svo ég gaf aðeins í. Ég var komin á 70 kílómetra hraða þegar ég missti stjórn á bílnum. Hann dansaði með mig nokkra hringi á veginum og síðan stakkst hann fram af vegarbrúninni og niður í snjóskafl og stóð þar á nefinu með skottið upp í loftið í vetrarmyrkrinu.
Mér tókst að komast út úr bílnum ósködduð, það eina sem lýsti mér voru stjörnurnar og mest lýsti Venus á suðvesturhimninum. Engin umferð og enginn farsími í febrúar 1993. Ég var ein úti í auðninni, líklega yrði ég úti. En ég var í afar þénugum kuldagalla guði sé lof og klofaði í gegnum skaflinn upp á veg og vonaðist til að sjá einhverja bílaumferð.
Eftir rúman hálftíma, einmitt þegar lokasýningin átti að hefjast í Hafnarhúsinu í 400 kílómetra fjarlægð, birtust fyrstu og líklega síðustu bílljósin á Skeiðarársandi þetta sunnudagskvöld. Ég baðaði út öllum öngum og stöðvaði bílinn með látum. Ungt og hraustlegt par steig út, trúðu vart sínum eigin augum, héldu fyrst að þau hefði séð draug. Þau buðu mér far en ég afþakkaði, sagðist vera á bíl en hann væri því miður á kafi í snjó. Parið gerði sér þá lítið fyrir og bauðst til að kippa bílnum upp úr skaflinum sem reyndist lítið mál.
Síðan settist ég aftur undir stýri og ók löturhægt að Kirkjubæjarklaustri, bankaði þar upp hjá vinum um miðnættið og bað um næturgistingu, algerlega búin á‘ðí. Ég hafði kvatt Hræðilega hamingju með eftirminnilegum hætti. Nú kveð ég Hilduleik héðan úr frostinu en ekki með neinni dramatík, ekki neinum hildarleik. Það er svo mikil kyrrð í klaustrinu.