Ástin er ekkert grín

Ástin var á dagskrá nýlega. Hún er reyndar alltaf á dagskrá, ekki bara á degi elskenda. Hún er eitt helsta umfjöllunarefni skáldanna. Við dásömum hana í ljóðum og söngvum, hún er út um allt og við komumst varla í gegnum lífið án hennar. Ekkert er verra en ástleysið, nema ef vera skyldi dauðinn. Sjálf hef ég alltaf verið í standandi vandræðum með þessa blessuðu ást, varð fljótt skotin og yfirleitt ástfangin af röngum mönnum, þráði og girntist, elskaði og saknaði og lenti hvað eftir annað í ástarsorg. Það hefur tekið alla ævina að læra að elska í alvöru sem er auðvitað best af öllu.  

Ástin er semsagt ekkert grín, samt skrifaði ég einu sinni gamanleikrit ásamt Eddu Björgvinsdóttur sem fjallaði líklega meira um ástina en nokkuð annað. Leikritið hét Láttu ekki deigan síga, Guðmundur og var sýnt í Stúdentaleikhúsinu sem þá var til staðar í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut. Leikstjóri sýningarinnar var Þórhildur Þorleifsdóttir, Anton Helgi Jónsson og Þórarinn Eldjárn gerðu söngtexta og músíkin var eftir Jóhann G. Jóhannsson. Ungir leikarar sem síðar áttu eftir að gera garðinn frægan, báru sýninguna uppi. Sýningin var hluti af Listahátíð í Reykavík vorið 1984 og sló rækilega í gegn.

 Allt byrjaði þetta með því að Brynja Benediktsdóttir heitin, leikstjóri hafði samband við Stúdentaleikhúsið fyrir hönd Listahátíðar. Hún hafði tekið að sér að búa til sýningu um ´68 kynslóðina og fundaði með nokkrum ungum skáldum og rithöfundum um möguleikann á að skrifa leikrit um þá kynslóð á Íslandi. Og ég villtist inn á þann fund. Brynja dró sig reyndar í hlé og margir af helstu höfundunum gerðu slíkt hið sama, þeir voru á kafi í öðru. Einn þeirra líkti því við rofnar samfarir að fara úr verkinu sem hann var að skrifa og byrja á einhverju nýju.

 Úr varð að ég dró upp úr pússi mínu smásögu sem hét Beðið eftir byltingunni sem ég hafði skrifað á námsárum mínum í Uppsölum. Hún fjallaði um ungan róttækan mann sem sat í Reynisfjöru og beið eftir því að hin samfellda bylting Trotskís myndi skella á suðurströnd Íslands. Á meðan hann sat og beið, fór hann í huganum gegnum ástarsambönd sín við ýmsar konur. Ein þeirra var á leiðinni til hans með rútunni frá Reykjavík austur í Vík í Mýrdal þar sem hann dvaldi á litlu hóteli við skriftir. Þessi smásaga varð síðan kveikjan að leikritinu um Guðmund.

 En hver var þessi Guðmundur? Jú, hann var ungur karlmaður sem skipti um ástkonu um leið og hann skipti um skoðun eða lífsstíl. Hann byrjaði í vinstri sinnaðri stúdentahreyfingu, gerðist hassreykjandi hippi, sá að sér og breyttist í verkamann, varð síðan að umhverfis- og húsverndunarsinna og síðast en ekki síst einn af helstu stuðningsmönnum Kvennalistans. Fyrstu konuna Höllu sem hann kynntist í menntaskóla og eignaðist með tvo drengi, þá Garp Snæ og Mána Frey, lét hann róa til að geta tekið þátt í lífsreynslukapphlaupinu en hann var auðvitað alfarið á móti lífsgæðakapphlaupinu. Á endanum fótbraut hann sig í því kapphlaupi eftir að hafa droppað sýru, fengið vængi og flogið út um glugga. Á sjúkrhúsinu kynntist hann hjúkkunni Sigurbjörgu og auðvitað kolféll hann fyrir henni eða hún fyrir honum. Í millitíðinni var hann með Ingu róttæku, Rós hippamey, kexverksmiðju Dröfn og kvenfrelsis Örnu. Að lokum tók hann saman við Dagbjörtu 17 ára menntaskólastúlku, skólasystur sonar hans Garps Snæs. Ungmennin tvö deildu sömu áhugamálum, hlustuðu á Duran Duran og Queen. Og auðvitað var Guðmundur að skrifa, um sjálfan sig en NB -  það var ekki sjálfsævisaga.

 Í einu bilinu á milli kvenna, kom hann örstutt út úr skápnum og þá var sungið:

Að vera heteró að vera hómó,

að vera bíbí, þríþrí eða sómó,

það skiptir engu en er þó málið,

að koma úr felum, felum, felum.

Þetta var löngu fyrir gleðigöngu og aðrar druslugöngur og samfélagið ekki eins opið og víðsýnt og nú gagnvart hinsegin fólki af hvaða kyni sem það var og þess vegna kjörið að gera hallærislegt grín að hommum á leiksviðinu. Og skamm fyrir það.

Eftir frumsýninguna kom til mín landsfræg leikkona og jafnaldra sem var í sjokki. Henni fannst þessi gamanleikur vera tragedía um ´68 kynslóðina. Hún sá sjálfa sig í Guðmundi, varð hugsað til allra sem hún hafði sofið hjá út í loftið og án nokkurrar meiningar, upplifði sig sem lausláta druslu. En eins og við vitum eru engar lauslátar konur til og allra síst á okkar dögum.  Halldór Laxness benti okkur á þessa staðreynd í Atómstöðinni. Þar lætur hann organistann segja: ,,Lauslátar konur eru ekki til. Það er hjátrú. Aftur á móti eru bæði til kvenmenn sem sofa þrjátíu sinnum hjá einum karlmanni og kvenmenn, sem sofa einu sinni hjá þrjátíu karlmönnum.“

 En eru þá til lauslátir karlmenn? Við Edda Björgvinsdóttir vorum á því að Guðmundur væri með lauslátari mönnum. Okkur fannst tími til kominn að taka á þessari greddu sem margir lausríðandi guðmundar höfðu enga stjórn á. Kannski vorum við ekki búnar að finna okkar eina sanna guðmund. Vandinn við að finna hinn eina sanna guðmund er nefnilega sá að áður en hann finnst, eru svo margir aðrir á undan. Og þótt mínir guðmundar hafi staldrað mislengi við og gengið undir ýmsum nöfnum, þá er bara einn guðmundur í lífi mínu núna. Og hann heitir líka Guðmundur. Ég kem semsagt úr felum með þetta. Ástin er ekkert grín.

 

 

 

Previous
Previous

Sturlunga hin nýja

Next
Next

Hræðileg hamingja