Kast á landamærunum

  Ég er komin heim í mitt dýrðlega stofufangelsi sem flestir eru í meira og minna allt árið um kring án þess endilega að vera í sóttkví. Og mitt stofufangelsi er hreinn lúxus og allt nöldur um annað ekkert nema lúxusvandamál. Ég kom til Íslands á sumardaginn fyrsta og lenti strax í hasar og hremmingum. Móttökurnar í Keflavík voru nefnilega ekki í samræmi við það sem ég hafði undirbúið mig fyrir með mikilli fyrirhöfn.

Á leiðinni heim las ég ljóð um samband manns við jörð og náttúru eftir Louise Glück og fylltist við það innri ró. Fátt er betra en að lesa ljóð meðan maður flýgur, sérstaklega ef manni er illt í hausnum og óglatt eftir bólusetningu. Ég gleymdi að pakka verkjatöflunum í handfarangurinn en var svo heppin að þekkja flugþjón um borð sem dældi í mig lyfjum. Svo lenti ég á fósturjörðinni þar sem glænýjar sóttvarnarreglur biðu komufarþega. Ég þóttist góð með mín mótefni og vottorð upp á það frá einu helsta sjúkrahúsi Svía og bólusetningu frá deginum áður. Ég fengi undanþágu frá sóttkví.

 Keik komst ég frá borði og í gegnum fyrstu stassjón með mitt strikamerki, forskráð og allsgáð, drakk ekkert á leiðinni nema vatn og hef aldrei pissað jafn mikið í einu flugi. Á annarri stassjón var mér gert að sýna vegabréf og vottorð um mótefni og bólusetningu. ,,Já, nei, þetta er ekki tekið gilt“ sagði landamæravörðurinn ákveðinn. Í ljós kom að aðferðin sem mælir mótefni í blóðinu var ekki rétt samkvæmt íslenskum stöðlum. Rétta aðferðin heitir Elisa og ég var ekki með Elisupróf af því sænska heilsugæslan notar það ekki.Til að komast í Elisupróf þarf maður að fara á einkastofu sem kostar peninga og tekur tíma ef maður býr ekki í grenndinni.

 Og ekkert mark var heldur tekið á bólusetningunni enda bara um eitt skot að ræða. Mín tvöfalda vörn mátti sín því einskis á landamærunum. Ekki gat mín unað þessari niðurstöðu og mótmælti eins og fleiri reyndar. ,,En svona eru reglurnar og alltaf að breytast,“sagði landamæravörðurinn; ,,Við reynum bara að vinna vinnuna okkar.“ Ég varð hálf miður mín við þessi tíðindi og þá var haft samband við fulltrúa sóttvarnaryfirvalda á landamærunum til að fá frekari staðfestingu á röngu vottorði. Niðurstaða fulltrúans var sú sama, vottorðið var handónýtt plagg.

 Það var þá sem tók ég kastið. Og líklega er best ég viðurkenni það strax. Ég á það til að fá köst. Vond köst, brjálast heiftarlega svo jafnvel lögreglan fölnar og þagnar. Í þetta sinn bjóst ég alveg eins við að ég yrði handjárnuð, lögð á börur og flutt inn á Klepp. Kastið fór ekki framhjá neinum og grímuklæddir potarar spruttu fram úr fylgsnum sínum og gláptu á þetta fyrirbæri sem sem tjáði sig full djarflega. Fulltrúi sóttvarnaryfirvalda kom hlaupandi og spurði með angist í svipnum: ,,Hvað er eiginlega að?“  

 Kastið var þá að breytast í gráthviðu en hætti við á miðri leið, tók á sig rögg og talaði af skynsemi og rökfestu. Með mínu innbyggða rakningarappi fór ég í gegnum covidveikindin fyrir ári síðan, eftirköst, mótefni, skimanir og sóttkví. Ég sagðist alls ekki vera á móti því að fara í skimun og sóttkví, komin með svo mikla reynslu. Mestu vonbrigðin voru að hafa ekki tekist að útvega réttu plöggin fyrir yfirvöld.  

 Á þriðju stassjón þar sem pota átti í kok og nef sagði tölvan að ég væri ekki innskráð í landið. Mér var skipað að fara á upphafsstöð og skrá mig inn í landið á ný. Þá fékk mín annað kast og það var aðeins stærra en hitt. Svona fjórir komma einn á Richter. Hræðilegur veikleiki hjá mér þessi köst og ég fæ alltaf móral eftir þau. Viðbragðsaðilar komu strax á vettvang og redduðu innskráningu en skimunarstúlkan fékk vægt sjokk. Þá birtist hann Kelvin kaldi og reddaði málunum. Potaði hughreystandi í mig pinnum með bros á vör.  

  Að lokum komst ég á fjórðu og síðustu stassjón og þar tók á móti mér indælis stúlka með kaskeiti sem spurði hvort ég væri ég, hvort símanúmerið mitt væri mitt símanúmer, heimilisfangið heimilisfangið mitt og alltaf kinkaði ég kolli því nú var ég farin að þrá stofufangelsið. Sú indæla lagði mér lífsreglurnar, ég yrði alltaf að hafa kveikt á símanum, lögreglan myndi fylgjast með mér í sóttkvínni og ef ég svaraði ekki þegar hún hringdi gæti ég átt von á hárri sekt.

 Eftir stefnulaust hringl um galtóma fríhöfnina, tókst mér loks að komast út undir bert loft en þar var hvorki rútu né leigubíl að sjá. Og auðvitað enginn að sækja mann í þessu fári. Íslenska rokið feykti mér loks fyrir hornið á flugstöðinni og inn í bíl merktan Aðalstöðinni í Keflavík sem skutlaði mér í bæinn.

Það tók síðan tvo sólarhringa að fá niðurstöðu úr skimuninni sem var auðvitað neikvæð og engin undanþága veitt frá sóttkví. Svo nú er ég bara heima að dúlla mér. Held bara áfram að lesa Louise Glück: I stood at the gate of a rich city/I had everything the gods required, horfi á hin umdeildu Systrabönd og dauðhreinsa íbúðina ef ske kynni að ég dræpist skyndilega. Alltaf jafn hugmyndarík.

 En í alvöru, mikið væri það gott ef hægt væri að samræma reglur um mótefnapróf. Það getur reynst mörgum dýrkeypt og illmögulegt að uppfylla kröfur íslenskra yfirvalda um hana Elisu. Sjálf dauðskammast ég mín fyrir að vera með vitlaust vottorð. Þetta er allt svo skýrt hjá yfirvöldum, engin upplýsingaóreiða.

Ég á ekkert að vera að ferðast milli há-hættusvæðis og há-hitasvæðis að óþörfu, ég sem þarf ekki einu sinni að stimpla mig reglulega til að fá bætur. En ég þarf kannski að fara að taka á þessum köstum áður en það verður of seint.

P.S. Löggan var að hringja.       

Previous
Previous

Sósíalismi í verki

Next
Next

Vottorð og vandræði